Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 118
118 TMM 2007 · 1
L e i k l i s t
Hrund Gunnsteinsdóttir
Spegill á hnig samfélagsins?
Evrípídes: Bakkynjur í þýðingu Kristjáns Árnasonar. Frumsýnt á stóra sviði Þjóðleik-
hússins 26. desember 2006. Leikstjórn: Giorgos Zamboulakis.
„Þessi borg þarf að læra, þótt treg sé hún til …“ segir Díonýsos, guð frjósemi
og víns, í upphafi leikritsins Bakkynjur, sem Þjóðleikhúsið frumsýndi á annan
í jólum. Eftir á að hyggja gætu þau allteins verið orð Evrípídesar, höfundar
Bakkynja, og þeim beint til samtímamanna hans í Aþenu um 405 fyrir Krists
burð. Eða jafnvel leikstjórans Giorgosar Zamboulakis þar sem verkið hefur
skilið eftir fjölda óspurðra og ósvaraðra spurninga meðal þeirra sem hafa séð
sýninguna.
Okkur Íslendinga skortir almenna þekkingu á grískum goðsögnum og við-
brögð við Bakkynjum hafa verið misjöfn á Íslandi. Gagnrýnendur hafa hrósað
uppsetningunni á marga vegu en helst fundið að henni fyrir fornfáleika og
skort bæði á tengingu við samtímann og skýrari atburðarás.1
Já, fólk veltir fyrir sér af hverju atburðarásin er ekki skýrari. Af hverju hristast
allir og skjálfa í verkinu? Hvernig tengist verkið samtímanum og okkur sem
einstaklingum? Hvers vegna sprettur fram lifandi kanína í lokin? Af hverju
greinir maður ekki alltaf orðaskil? Hver er tilgangurinn með verkinu? Hvað
skilur það eftir? Eru Bakkynjur í nútímalegri uppsetningu Þjóðleikhússins leik-
rit, gjörningur, dans- eða tónverk? Skúlptúr eða myndlist? Eða heimspekileg
diskússjón um þig sem áhorfanda og samfélagið sem þú ert hluti af? Þarf áhorf-
andinn að fræðast um harmleikinn áður en hann sér hann? Getur hugsast að
lykillinn að góðri upplifun felist í að láta blessaða rökhugsunina lönd og leið?
Láta undirmeðvitund, þolinmæði og innsæi ráða ferðinni og teika far með
flæðinu á vit skilningarvitana? Búdda, Beckham, Jesús og Bakkos forði mér frá
því að leggja mat á þessar vangaveltur og uppsetningu Bakkynja yfir höfuð.
Textinn hér á eftir endurspeglar miklu frekar tilraun til að skilja verkið og
vangavelturnar sem uppsetning Þjóðleikhússins kom af stað.
Grimm örlagasaga
Í stuttu máli fjallar leikritið um komu Díonýsosar til Þebuborgar í Grikklandi,
eftir útlegð, langan leiðangur og herför um Egyptaland og Asíulönd. Í Þebu er