Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 16
D i c k R i n g l e r
16 TMM 2007 · 1
dómurinn er skrifaður út frá þeirri skoðun Vladimirs Nabokov og fleiri
að þýðingar verði að vera orðréttar, annars séu þær rangar. Það besta
sem hægt sé að ætlast til af þýðingum sé að þær séu nákvæmar og að því
beri að stefna. Þýðingarnar mínar stóðust ekki það próf. Enda var þeim
aldrei ætlað að standast það próf. Það er nógu fjandi erfitt að þýða prósa
yfir á prósa – til dæmis fannst okkur Sverri Hólmarssyni ekki mikið
koma til ensku þýðingarinnar á Kristnihaldi undir jökli og við ræddum
um að þýða hana aftur. En svo dó Sverrir og ég uppgötvaði að það er um
það bil hundrað sinnum erfiðara að þýða Halldór Laxness á ensku en
Jónas Hallgrímsson. Alveg satt! Jónas yrkir kunnugleg rómantísk ljóð
og þar eð ég hermi eftir öllum bragbrögðunum, stuðlasetningu og slíku,
þá leyfist mér að breyta því sem ég þarf að breyta en þó þannig að merk-
ing haldi sér. Við þýðingu á Kristnihaldinu hef ég ekki það leyfi. Ég verð
að ná öllum ótrúlega nettu áhrifunum sem Laxness er svo góður í, allt
frá orðunum sem hann velur upp í setningaskipanina, allt hefur merk-
ingu. Í vissum skilningi voru ljóð eins og Jónasar ort víðsvegar um
Evrópu, en enginn hefur nokkru sinni verið líkur Halldóri Laxness. Þess
vegna er hann miklu erfiðari viðfangs. Ég reyndi einu sinni að þýða
Tómas Guðmundsson, hann er líka erfiðari en Jónas. Hann er ekki eins
góður og Jónas og ekki eins mikilvægur, en hann er óræðari og hann
hefur makalaust léttan og mildan tón sem erfitt er að flytja milli tungu-
mála. Hann hugsaði svo mikið um það sem er sérstætt við Ísland, það
gerði Jónas ekki. Jónas er síyrkjandi um Ísland en hann gerir það þannig
að það er auðvelt að koma því yfir til annarra – hann er svo evrópskur.
Gagnrýnandi Skírnis hélt virkilega að þessar þýðingar væru betri ef
þær væru orðréttari. Gagnrýnandi TLS hafði sjálf þýtt Eddukvæði og
barist við sömu vandamál og henni fannst baráttan alveg þess virði – að
reyna að ná hljómnum í kvæðunum. Hún benti á að það sem ég væri að
reyna væri að ná sömu áhrifum í upplestri hvort sem kvæðið væri lesið
á íslensku eða ensku. Bókstaflega merkingin væri mér ekki eins mikið
mál og formið og hljómurinn. Þetta eru tvær fjarskalega ólíkar skoðanir
og þær eiga báðar rétt á sér.“
Þá er spurning hvort ekki hefði átt að fá mann með svipuð viðhorf og
þín til að skrifa dóminn í Skírni. Manni finnst eiginlega marklaust að fá
umsögn frá manni sem er beinlínis á allt öðru máli í grundvallar-
atriðum.
„Ja, ég veit það ekki. Það er meiri von á líflegum umræðum ef hug-
myndafræðilegir andstæðingar skrifa um bækur!
Ég man eftir skemmtilegri tilvitnun í Sir John Denham sem þýddi
hluta af Eneasarkviðu Virgils um miðja 17. öld. Í formála að þýðingunni