Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 124
L e i k l i s t
124 TMM 2007 · 1
„Hinn ókunnugi“
Hnattvæðingin og alþjóðavæðing neysluhyggjunnar hefur haft þau þversagna-
kenndu áhrif að ýta undir einsleitni meðal manna annars vegar og hins vegar
varpa ljósi á það sem greinir þá að. Þetta dregur okkur að „hinum ókunnuga“,
„útlendingnum“, og vekur tilhneigingu eða þörf til að greina „okkur“ frá
„hinum“. „Hinir“ er þá samsafn fólks sem er ólíkt okkur, framandi eða fólk
sem hegðar sér þannig að það hræðir okkur. Gerir eitthvað sem við gætum sagt
að væri drifið áfram af illsku; eitthvað sem við teljum jafnvel ómannlegt og
„við“ myndum aldrei gera. Til dæmis hryðjuverk eða kynferðislegt ofbeldi
gegn börnum. Jafnvel frumbyggi gæti valdið ótta í brjósti borgarbarnsins,
einfaldlega vegna vanþekkingar og fordóma hins síðarnefnda.
Í Bakkynjum varpar Evrípídes ljósi á það hversu samofinn ótti manneskj-
unnar við hið ókunnuga er við eilífa leit mannsins að sjálfum sér. Það er að
segja, að það sem við óttumst mest í fari annarra sé í raun hluti af okkur sjálf-
um, sú hlið sem við eigum erfitt með að horfast í augu við. Með taumleysi og
algleymi Díonýsosardýrkunarinnar boðar guðinn að hver og einn leysi ein-
staklingseðli sitt úr læðingi til þess að geta sameinast öðrum. Þannig könnum
við mörk, víkkum út landamæri og setjum okkur í spor annarra til þess að
reyna að skilja „hinn“ betur. Í þessu er fólginn ákveðinn kærleiksboðskapur og
tilraun til að eyða tortryggni og fordómum. Hvernig þetta hefur svo með sjálfs-
leit að gera felst í tregðu mannskepnunnar til að horfast í augu við það litróf
hvata og tilfinninga sem hún býr yfir. Heimspekingarnir Julia Kristeva og
Richard Kearny halda því fram, að það að viðurkenna „hinn ókunnuga“ og
taka honum opnum örmum gangi út á að sættast við sjálfan sig.
Kearny segir í bók sinni Strangers, Gods and Monsters (2003) að mannfólkið
hafi í gegnum tíðina óttast hvað mest einstaklinga eins og guði og skrímsli sem
eru öðruvísi en „við“. Ástæða óttans sé sú að þessir aðilar hafa snúið á hvolf
hefðbundnum hugtökum og þröngvað okkur til að endurhugsa hver við erum.
Þegar hróflað er við öryggisneti mannskepnunnar tekur óöryggi og ótti við.
Þegar Díonýsos og fylgdarlið hans koma til Þebu bregst Penþeifur við með
því að úða yfir hann fordómum. Hann kallar guðinn útlending og galdrakind.
Hann hótar ofbeldi, enda er öryggi Þebuborgar í veði. Að skilgreina sameigin-
legan óvin, að eyrnamerkja „hinn ókunnuga“ hefur löngum verið áhrifaríkt
lím á samfélög. Tökum átökin í Rúanda sem dæmi. Þar var upplýsingaflæði til
almennings kerfisbundið stjórnað, leitast við að skilgreina sameiginlegan óvin
og skapa ótta og óöryggi gagnvart náunganum. Að lokum var orðræðan um
„hinn“, eða „óvininn“ búin að skapa svo mikla fjarlægð og ótta að það endaði
með einum mestu fjöldamorðum í sögunni.
Þegar Penþeifur hefur tekið Díonýsos og fylgdarkonur hans frá Asíu til
fanga lætur hann sótthreinsa þær, klæða þær úr skinn- og hörfatnaði en í
háhælaða skó. Í framhaldi af því sjást þær með strigapoka með merki sem
svipar til tákns Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hér er meðal ann-
ars vísað í stöðu flóttafólks í heiminum, innflytjendamál í Evrópu og á Íslandi,