Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 120
L e i k l i s t
120 TMM 2007 · 1
skrifaði Bakkynjur og Aristóteles gekk um í slopp og fílósóferaði um það sem
var síðar kallað vestræn leiklist?
Þegar litið er yfir sögu Aþenu á tíma harmleikjaskáldanna er engu líkara en
verið sé að lýsa harmleik. Þetta voru stórveldistímar þar sem aþenska lýðræðið
var að mótast með opinni umræðu og endalausum heimspekilegum rökræð-
um sem einkennast, er á líður, af oflæti, grimmd, valdagræðgi og lýkur að
lokum með hruni Aþenu árið 404 f. Kr. „Blindaðir af velgengni sinni í stríð-
unum við Persa sýndu Aþeningar minni borgríkjum yfirgang og stórveld-
ishroka sem leiddi til hins svokallaða Pelopsskagaófriðar við Spartverja og
bandamenn þeirra árið 431 f. Kr.,“ skrifar Kristján Árnason, þýðandi Bakkynja,
í leikskrána.
Harmleikjaskáldin þrjú, Æskýlos, Sófókles og Evrípídes, hafa hvert sitt hlut-
verk við að endurspegla samtímann í Aþenu á sínum tíma; ris, hámark og hnig.
Og það verður hlutskipti Evrípídesar, sem var yngstur þeirra, að horfa upp á
hrun Aþenu. Í stað þess að endurspegla hugsjónir og dásemdir þeirra gilda sem
höfð voru í heiðri í Aþenu efast Evrípídes og gagnrýnir samtíma sinn. Hann
slær ekki fram skýrum boðskap heldur spyr spurninga. Hann er gagnrýninn á
framkomu mannsins við náungann, framkomu karla við konur, hann efast og
afhjúpar fremur en að upphefja. Og í Bakkynjum styðst hann við söguna um
Díonýsos og fjölskylduharmleik Kaðmosar og ættar hans til að viðra eigin sýn
á samtímann og sammannleg efni. „En framar öllu,“ segir Kristján í leik-
skránni, „fylgdi hann þeirri listrænu köllun að kafa niður í sálarlíf fólks og
sýna hvernig sterkar og blindar ástríður geta tekið þar öll völd og ráðið ferð-
inni.“
Rökhugsun mætir innsæi og eðlishvöt
Leikhús og leikmennt rekja uppruna sinn til Díonýsosardýrkunarinnar. Á
hátíðum vínguðsins fóru menn í Aþenuborg að iðka opinbera víxlsöngva og
síðar leiki, bæði sorgar- og gleðileiki. Þetta var hreint og beint þáttur í guðs-
þjónustu Grikkja,3 og Díonýsos var alþýðlegastur grískra guða.
Díonýsos stendur fyrir óheftar mannlegar tilfinningar í allri sinni dýrð,
myrkar, grimmar, annarlegar eða bjartar. Hann bælir ekki tilfinningar sínar,
eðlishvöt eða þrár. Hann boðar að fylgjendur láti reglur samfélagsins, orðræðu,
kynja- og hlutverkaskipti lönd og leið og sleppi fram af sér beislinu um stund-
arsakir. Díonýsos höfðaði sérstaklega til kvenna (líkt og Jesús á sínum tíma),
en konur í Aþenu voru kúgaðar, hlutverk þeirra var niðurnjörvað innan veggja
heimilisins og það var sjaldgæft að konur fengju að fara í leikhús.
Dýrkun á Díonýsosi fólst í því að fylgjendur hans runnu saman við guðinn,
fóru út úr eigin líkama og upplifðu ekstasíu. En lykilatriðið var að koma aftur
til sjálfs sín. Boðskapurinn gengur út á að kanna hvar mörk okkar liggja með
því að fylgja eðlishvötinni og vera óhrædd við að setja okkur í nýjar aðstæður,
hlutverk og spor annarra. Það er semsagt í lagi að sleppa sér af og til, kanna
nýjar lendur sjálfsins, ef maður gætir þess að tapa ekki sjónar á sjálfum sér. Það