Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 76
B ó k m e n n t i r
76 TMM 2007 · 1
Það form sem saga bókmenntanna tekur sér í huga manns er sennilega alltaf
súbjektíft, eins og glöggt kemur í ljós ef maður athugar hvernig viðhorf manns
sjálfs sem einstaklings hafa breyst gegnum tíðina. Þetta get ég gjarna skoðað í
ljósinu frá skrifum Silju um kynhverf ástarljóð. Þar finnst mér henni takast að
fjalla um kontróversíellt efni þannig að allt falli í ljúfa löð, en ég er ekkert viss
um að mér hefði þótt það fyrir tuttugu árum. Skýringin er að sýn mín sjálfs
hefur breyst. Alveg á sama hátt eru skrif hennar um pólitískt andhverf skáld
hugljúf. Fyrir 40 árum hefði verið óhugsandi að við Silja ættum einn af bestu
vinum okkar í Matthíasi Johannessen og mætum skáldskap hans meira en
margra annarra. Þar hefur Silja kennt mér býsna margt og opnað leiðir sem
áður voru lokaðar. Kalda stríðið gerði okkur nefnilega ekki að betri manneskj-
um, eins og Matthías benti réttilega á.
Sagnatal
Þó ekki væri nema fyrir orðafjölda og bókstafa er morgunljóst að það er ekki
skynsamlegt (þótt skemmtilegt væri) að leggja á einn höfund að skrifa um
skáldsögur og annan prósa allrar tuttugustu aldar, hvað þá frá ca. 1880. Það
verður líka niðurstaðan að um skáldsögur og frásagnarþætti eftir fyrra heims-
stríð skrifa sex höfundar (Árni Sigurjónsson, Dagný Kristjánsdóttir, Halldór
Guðmundsson, Jón Yngvi Jóhannsson, Magnús Hauksson og Matthías Viðar
Sæmundsson) og síðan bætast tveir við þegar kemur að leikritun og enn einn
um barnabókmenntir. Þetta er allt í senn eðlilegt, skynsamlegt og slæmt.
Eðlilegt er það vegna þess að enginn er sérfræðingur á öllum sviðum. Skyn-
samlegt er það vegna þess að það er sennilega eina leiðin til að fá á endanum
texta í bókmenntasöguna, en slæmt er það vegna þess að það er afskaplega erf-
itt að gefa öllu saman heildarsvip. Og ofaná kemur að höfundarnir hafa fengið,
eins og áður sagði, að fara sínar leiðir og eru afar ólíkir.
Líklega var Matthías Viðar sá sem þorði að fara næst Siljuleiðinni (Silja Line)
sem ég lýsti. Hann var ákafamaður og gríðarlega góður skríbent þegar allt var
í lagi. Það sem hins vegar veldur vandanum í skáldsagnatalinu er hve ólíkar
leiðir höfundar bókmenntasögunnar fara. Þar er afar fróðlegt að bera saman
texta Matthíasar Viðars og Dagnýjar. Stundum spyr maður sig sem lesandi
hvort þau séu ekki örugglega bæði stödd í sömu sögu!
Frásögn af bókmenntum er ávallt tvíbent. Annars vegar getur hún orðið til
þess að vekja forvitni og löngun til lestrar, hins vegar slökkt áhuga á að kynnast
verkunum nánar. Mér sýnist Silju takast hið fyrrnefnda mjög þokkalega og
stundum með ágætum. En ég er í miklu meiri vafa um endursaganir Árna og
Dagnýjar á skáldsögum. Þar er veruleg hætta á að lesandi segi sem svo: Ókei!
Þessa bók þarf ég ekki að lesa. Gott. – Hins vegar skal líka tekið fram að „Inn-
gangur“ Dagnýjar að skáldsagnakaflanum eftir stríð er með allrabestu köflum
bókanna. Hann er hvort tveggja í senn skýr og fræðandi og vekur einmitt löng-
un til að lesa bókmenntirnar inn í hann. Þegar maður ber síðan saman end-
ursagnir hennar, Jóns Yngva og Árna á skáldsögum, hlýt ég að játa að mér