Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 54
Vé s t e i n n Ó l a s o n
54 TMM 2007 · 1
öðru nafni Loptr. Í sjálfu sér færi ágætlega á því að segja að ormur gapi
yfir Loka, sá sem eitrið draup úr. En bæði í Konungsbók og Hauksbók
er þessi mynd hluti af lýsingunni á ragnarökum og því eðlilegast að
skilja svo, og hreint ekki ótækt, að Miðgarðsormur fari fram með gap-
anda munni svo að efri skoltinn beri við himin, og er þetta þá inngang-
ur að viðureign Þórs og Miðgarðsorms. Þótt það sé hugsanlegt að þessi
vísuorð hafi einhvern tíma átt heima í mynd af Loka bundnum, er að
mínum dómi engin ástæða til að gera svo róttæka breytingu á varðveitt-
um texta.
i) Fenris kindir (40–20), s. 73
Ein af mörgum torskildum verum í Völuspá er ‚in aldna‘ sem samkvæmt
K40 situr í austri og ‚fæðir þar Fenris kindr‘. Venjulega skilja menn þetta
svo að um einhverja gýgi sé að ræða sem ali (fæði af sér eða næri) úlfa,
og einn þeirra er sá sem gleypir tunglið, en Snorri vitnar í þessar vísur
og kallar úlf þann Mánagarm. Réttilega er á það bent í Maddömunni að
skáldleg nöfn úlfa eru stundum notuð um eld, og mætti skilja vísuna svo
að gýgur þessi næri, eða haldi lifandi, þeim eldi sem um síðir muni
gleypa tunglið. Þetta finnst mér vel geta staðist, en í Völuspá er eldurinn
vissulega síðasta og efsta stig þeirra eyðandi afla sem tortíma heimi í
ragnarökum.
j) Míms synir (46–44), s. 81
Þótt ‚Míms synir‘ séu að vísu óþekktir, get ég ekki fallist á að ástæða sé
til að lesa fremur ‚sýnir‘, því að þarna er getið um athafnir ýmissa vera,
og sögnin ‚leika‘ á hér vel við um þá sem fara með vopnaburði eða æfa
hann. Þetta er við upphaf bardagans mikla.
Allir sem glíma af alvöru við að skilja kvæði eins og Völuspá eiga heiður
skilinn. Það á Helgi Hálfdanarson líka fyrir bók sína. Hann greinir á við
eldri fræðimenn, og mig greinir á við hann og aðra. Þessi ágreiningur er
að mínum dómi mikilvægur fyrir líf kvæðisins í menningu okkar. Við
eigum ekki að gera of mikið úr honum, en heldur ekki að reyna að eyða
honum eða breiða yfir hann. Hver kynslóð leitar að sínum sannleika, en
sannleikurinn er ekki einn um slík efni. Réttara væri að segja að sann-
leikurinn sé utan seilingar. Við leitum merkingar og teljum okkur finna,
en sjálf höfum við myndað hana. Um ólíkar túlkanir Völuspár mætti
hafa orð Þrándar í Götu um trúarjátninguna: „… eru margar kreddur,
og er slíkt, segir hann, eigi á eina lund rétt.“