Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 98
98 TMM 2007 · 1
Tónleikarnir voru viðburður, því þetta var í fyrsta sinn sem tríó Ligetis var
leikið hér á landi. Flutningurinn var líka stórfenglegur; hann náði fullkomlega
að miðla göldrum Ligetis til áheyrenda, myndaði þessa einstöku stemningu
sem er vandfundin annars staðar. Nú veit ég að tónlist verður illa lýst með
orðum, en ég reyndi engu að síður að gefa einhverja mynd af verki Ligetis þegar
ég skrifaði eftirfarandi um tónleikana fyrir Morgunblaðið: „Tærir píanóhljóm-
arnir í upphafi voru ótrúlega seiðandi – eins og ljós úr öðrum heimi – og dul-
úðugir fiðlu- og horntónarnir sköpuðu mótvægi skugga og myrkurs sem gerði
ljósið bjartara en ella. Brjálæðislegur danstakturinn í hröðum öðrum kafl-
anum var líka meistaralega útfærður í hárnákvæmu samspilinu og djöfullegur
göngumarsinn í þeim þriðja ótrúlega ofsafenginn. Sama var uppi á teningnum
í hægum en rismiklum lokaþættinum; þar voru hápunktarnir svo magnaðir að
þeir munu aldrei líða mér úr minni.“
Fjarlægður með valdi
Nú samanstendur tónlistarlífið auðvitað af fleiru en tónleikum og segja má að
nútímamenning sé smurð með alltumlykjandi tónlist úr útvarpi, geislaspil-
urum, tölvum og ipodum. Tónlistarmenningin byggist ekki aðeins á spila-
mennsku og söng fyrir framan áheyrendur í sal, heldur líka á kennslu og
ýmiskonar útgáfustarfsemi; nótnabókum, geisladiskum, útvarps- og sjón-
varpsþáttum, greinum í blöðum og fleira. Hvað yrði um tónleikalífið á landinu
ef engin umræða væri um það á opinberum vettvangi? Mig langar því til að
minnast sérlega skemmtilegrar greinar um Ligeti eftir Atla Heimi Sveinsson í
Lesbók Morgunblaðsins í sumar, en þar mátti lesa um erindi sem Ligeti hélt
einu sinni um framtíð tónlistarinnar. Ligeti stóð í ræðupúltinu nákvæmlega
þær tíu mínútur sem erindið átti að taka, en þagði bara. Það var með ráðum
gert; Ligeti var þar með að segja að framtíð tónlistarinnar væri svo óljós að
ekkert væri hægt að segja um hana af viti. Af einhverjum ástæðum er fólki oft
illa við þögn og á meðan Ligeti þagði urðu áhorfendur æstari og æstari. Sumir
misstu stjórn á sér og kölluðu uppákomuna hneyksli. Á endanum var Ligeti
fjarlægður með valdi.
Hið fræga píanóverk eftir John Cage, Fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sek-
úndur, byggist einnig á þögn; píanóleikari situr grafkyrr við píanó og gerir ekkert
í um fjórar og hálfa mínútu. Cage sagði reyndar að verkið þyrfti ekkert endilega
að vera svo langt, það mætti þess vegna vera styttra eða lengra. Ég tók hann á
orðinu þegar ég flutti verkið á ráðstefnu í Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum
og hafði lengdina bara eftir tilfinningunni. Þegar fólk var farið að ókyrrast
verulega og jafnvel farið að hlæja vandræðalega, stóð ég upp, hneigði mig og gekk
út. Svo leit ég á klukkuna og komst að því að ég hafði bara setið við flygilinn í um
tvær mínútur. Hvað hefði gerst ef ég hefði setið þar í tíu mínútur?
Cage hefur sagt að Fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur megi gjarn-
an vera flutt af öðrum hljóðfæraleikurum, jafnvel söngvurum. Væri ekki
gaman ef Íslenska óperan setti upp óperusýningu, með flottri sviðsmynd,
Tó n l i s t