Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 70
70 TMM 2007 · 1
B ó k m e n n t i r
Heimir Pálsson
Sagan öll
Íslensk bókmenntasaga. I–V. Mál og menning 1992–2006. Ritstjórar: Vésteinn
Ólason, Halldór Guðmundsson og Guðmundur Andri Thorsson. Aðrir höfundar:
Árni Ibsen, Árni Sigurjónsson, Böðvar Guðmundsson, Dagný Kristjánsdóttir, Gísli
Sigurðsson, Guðrún Nordal, Jón Yngvi Jóhannsson, Magnús Hauksson, Magnús Þór
Þorbergsson, Margrét Tryggvadóttir, Matthías Viðar Sæmundsson, Páll Valsson, Silja
Aðalsteinsdóttir, Sverrir Tómasson, Torfi H. Tulinius, Viðar Hreinsson.
Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu
þau áttu sér kálf.
Þá er sagan hálf.
Hann hljóp út um víðan völl
og þá er sagan öll.
Íslensk speki.
At skrive litteraturhistorie er at gentage. Det er ikke alene litteraturen selv, der
gentages, men også alt det, der er skrevet om den, enkeltstudier, monografier og
andre litteraturhistorier; men at skrive litteraturhistorie er også at overskrive og
overskride.
Preben Meulengracht Sørensen 2006:13. Leturbr. HP
Það er stórt nafn Íslensk bókmenntasaga I–V (hér eftir ÍB) og í raun stórhátíðar-
efni, næstum jól, að komin er út samfelld saga íslenskra bókmennta frá land-
námi til aldamótanna 2000 með öðrum eins ókjörum af fróðleik og fundinn
verður á þessum 3390 textasíðum.
Þegar fyrsta bindi ÍB kom út árið 1992 var áætlunin djarfleg, annað bindi
skyldi koma 1993 og þriðja og fjórða bindi „munu fylgja fast á hæla 2. bindis.“
Það fór ekki svo. Það eru liðin fjórtán ár síðan 1. bindið kom, þau síðustu búin
að vera lengi í vinnslu, t.d. skrifar Silja Aðalsteinsdóttir undir lok sinnar
umfjöllunar: „þegar þetta er ritað (sumar 2000)“ (V:421) og er þá ljóst að hálfan
áratug er hennar efni búið að vera til áður en lesendur sjá það. Þetta hefur
óhjákvæmilega áhrif á heildarmynd verksins.
Sjálfsagt er að taka fram að ég er ekki dæmigerður notandi þessara bóka
heldur einn fárra sem lesa þær í lotunni frá upphafi til enda. Þannig verða þær
ekki lesnar og notaðar. En þetta ákvað ég strax að ég skyldi gera og reyna þann-
ig að fá mynd af heild sem kannski er stundum býsna kaótísk.