Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 3
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
16
gegn konum og samþykkir ofbeldið og ótta kvenna við ofbeldið sem norm.
Buchwald, Fletcher og Roth benda á að slík menning fái að viðgangast og án
gagnrýni, almennt viðhorf í samfélaginu er að slík menning sé „eðlileg“ og
óhjákvæmileg og með þeim hætti er undirokaðri stöðu kvenna í samfélaginu
viðhaldið. Nauðgunarmenning er því ein af birtingarmyndum kynjamisréttis.6
Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á birtingarmyndir nauðg-
unarmenningar á Íslandi. Leitast er við að svara eftirfarandi rannsóknar-
spurningum: Hvaða hugmyndir eru ríkjandi meðal ungs fólks um nauðg-
anir? Eru þolendur gerðir ábyrgir fyrir ofbeldinu og gerendur séðir sem
sjúkir og þar með ekki ábyrgir gjörða sinna? Samræmast þessar hugmyndir
mýtum um „alvöru nauðgun“? Hvernig spegla brotaþolar nauðgana sig í
þessum hugmyndum? Rannsóknin er byggð á eigindlegum rannsóknarað-
ferðum. Tekin voru rýnihópaviðtöl við háskólanema á höfuðborgarsvæðinu
og hálf-stöðluð viðtöl við háskólanema, brotaþola nauðgana og sérfræðing
sem starfar náið með brotaþolum. Gagnaöflun fór fram á árunum 2011-2013
og voru viðmælendur 23 talsins. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á
nauðgunarmenningu hér á landi, hvernig nauðganir og annað kynferðis-
legt ofbeldi er normalíserað og hvernig orðræðan eða ríkjandi hugmyndir
um nauðganir fjalla einkum um að brotaþolum er kennt um nauðganirnar,
nauðgun er dregin í efa og leitað er leiða til að afsaka gjörðir gerenda. Áður
en fjallað er frekar um niðurstöður rannsóknarinnar munum við fara yfir
fræðilegar undirstöður. Í framhaldi af því er farið yfir aðferðarfræði rann-
sóknarinnar, gagnaöflun og greiningu gagna.
Fræðilegar undirstöður
Ofbeldi er talið kynbundið þegar í því birtist kerfisbundið valdamynstur þar
sem karlar eru meirihluti gerenda og konur meirihluti þolenda. Kynbundið
ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt, en hér er áherslan
á kynferðislegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi birtist m.a. í kynferðislegri
áreitni og nauðgunum. Buchwald, Fletcher og Roth segja rót kynferðisof-
beldis vera undirliggjandi viðhorf til kvenna, viðhorf sem hægt er að breyta.
Í nauðgunarmenningu eru valdbeiting og yfirráð álitin kynæsandi, sem ýtir
undir kynferðislegan yfirgang karla.7 Karlar mynda félagsleg tengsl sín á
milli með því að áreita konur kynferðislega. Þeir eru þá ekki eingöngu að
6 Emilie Buchwald, Pamela R. Fletcher og Martha Roth, ritstj., Transforming a rape
culture, Minneapolis: Milkweed Editions, 2005, bls. xi.
7 Sama heimild, bls. xi.