Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 29
GUðRÚn STEInÞóRSDóTTIR
42
ævisaga.2 Í því greinir Vigdís frá nauðgun sem hún varð fyrir sem barn en
þó einkum afleiðingum hennar. Fram kemur að hún hafi ákveðið að þegja
um glæpinn en afleiðingar hans, eins og þeim er lýst í verkinu, er klofningur
hennar í tvær persónur; Dísu og Gríms. Það er Dísa sem talar í textanum
hér að ofan en í sögunni segist hún ekki bara hafa orðið fyrir nauðguninni
heldur hafi Gríms orðið til í framhaldinu, hún hafi komið og verndað hana
fyrir afleiðingunum en um leið tekið yfir líkamann sem þær deila. Gríms
hefur markvisst haldið Dísu niðri en nú gefur hún Dísu í fyrsta skipti tæki
færi á að láta ljós sitt skína og skrifa sögu sína: Dísusögu.
Þegar nauðgunin var framin var samfélagsafstaða önnur en nú því um
kynbundið ofbeldi var lítið sem ekkert rætt. Í sögunni er áhrifum þagnar um
nauðganir lýst en í brennidepli eru átök sjálfsins, samskipti persónanna Dísu
og Gríms og valdabarátta þeirra. Í þessari grein verður fyrst rætt um ólík
viðhorf til kynferðisafbrota á ólíkum tímum með hliðsjón af viðtökum þeirra
verka Vigdísar sem hafa verið tengd persónu hennar sjálfrar. Þá verða reif
aðar kenningar um samræðusjálf og tráma og þær tengdar persónunum Dísu
og Gríms. Í kjölfarið verður skoðað hvernig Dísa gerir greinarmun á sjálfri
sér og Gríms meðal annars með því að beita ákveðnum líkingum og íróníu.
Að lokum verður fjallað um Dísusögu sem dæmi um sjálfsþerapíu; enda þótt
áhersla sé þar lögð á átökin á milli raddanna tveggja skal því haldið fram að
sagan sé engu að síður aðferð til að sætta tvær ólíkar raddir í sama kroppi.
Þá og nú
Lengi fór ekki mikið fyrir opinberri umræðu um kynferðisofbeldi á Íslandi
en á níunda áratug síðustu aldar – í kjölfar annarrar bylgju femínismans –
varð breyting á. Til marks um opnari umræðu má nefna að orð eins og
2 Sjá t.d. flokkun Forlagsins á sögunni á vefsíðu þeirra. Forlagið, sótt 15. febrúar 2019,
af https://www.forlagid.is/vara/disusaga-konan-me%c3%b0-gulu-toskuna/. Í viðtali Egils
Helgasonar við Vigdísi Grímsdóttur um Dísusögu, í Kiljunni, segir Egill að flokka
megi söguna sem skáldævisögu. Vigdís tekur undir að það sé „ágætt að flokka þetta
bara sem skáldævisögu, skáldaða ævisögu“ og Egill bætir við að verkið sé líka ævisaga
skálds sem Vigdís samþykkir. Sjá Egill Helgason, Kiljan, viðmælandi Vigdís Grímsdót
tir, sjónvarpsþáttur sýndur 23. október 2013, RÚV. Hugtakið skáldævisaga er sumpart
vandræðahugtak. Með hliðsjón af mörgum minnisrannsóknum er ljóst að fólk man
sjaldnast fortíð sína nákvæmlega heldur fyllir í eyðurnar með hjálp ímyndunaraflsins.
Sbr. Daniel L. Schacter, Searching For Memory: The Brain, The Mind And The Past, Ba
sic Books, 1996, bls. 40 og 91. Þar með eru allar ævisögur að einhverju leyti skáldaðar
og gætu því allar talist vera skáldævisögur. Reyndar er aukaatriði hvaða merkimiði er
settur á Dísusögu Vigdísar en lykilatriðið er að sagan er byggð á ævi skáldkonunnar og
segir því frá reynslu hennar og upplifun með hjálp skáldskaparins.