Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 40
„SAMBýLISKOnUR […] Í SAMA KROPPI, Í SAMA HöFðI, Í SAMA BLóðI“
53
lífi hennar.37 Árásin hefur þau áhrif að Dísa þarf að endurbyggja sýn sína á
heiminn til að geta fellt hann að reynslu sinni en liður í því er að rödd Gríms
verður til, þróast og tekur stjórnina í lífi þeirra stallna. Í sögunni má greina,
í fari Dísu og Gríms, sum af þeim einkennum sem van der Kolk tiltekur að
geti einnig einkennt trámatíska reynslu en ekki endilega áfallastreituröskun.
Ber þar helst að nefna árásarhneigð einstaklings gagnvart sjálfum sér en hún
kemur glögglega í ljós í samskiptum Dísu og Gríms eins og gerð verður
grein fyrir í næsta kafla.38 Tekið skal fram að þrátt fyrir að umfjöllunarefni
Dísusögu sé alvarlegt þá tekst Dísu með húmornum að vinna gegn því að frá
sögnin verði bara sorgarsaga; gáskinn og írónían skína einatt af textanum.
Líkami Gríms og Dísu
Vegna þess að raddirnar tvær, Dísa og Gríms, eru persónugerðar orka þær
eins og tvær ólíkar persónur sem hafa ekki aðeins mismunandi skoðanir
og sjónarhorn heldur geta einnig hegðað sér á ólíkan hátt. Fyrir vikið geta
gjörðir þeirra ýmist komið sér vel fyrir þær báðar eða illa. Þegar Dísa fær
loksins tækifæri til að halda um pennann – en það hefur hún þráð í hartnær
þrjátíu ár39 – er ljóst að henni liggur margt á hjarta en einkum er henni í mun
að lýsa samlífinu með Gríms og hvernig það er að þurfa sífellt að berjast fyrir
tilveru sinni. Hún leggur ríka áherslu á að lýsa sér og Gríms sem andstæðum
og draga upp myndir þar sem Gríms drottnar yfir henni og kúgar með því
að meina henni að vera „uppi á yfirborðinu“ og taka þátt í lífinu. Aðferðirnar
sem Dísa beitir til að greina frá valdinu og valdaleysinu í sambandinu eru
37 Anne Whitehead, höfundur bókarinnar Trauma Fiction, segir að skrif um tráma líkist
gjarnan einkennum tráma sem geri það að verkum að skipun atburða sé oft ekki í
tímaröð og endurtekningar og stefnuleysi sé einkennandi. Hún segir einnig að í
umfjöllun um trámatíska reynslu leggi höfundar einatt meiri áherslu á hvers vegna
og hvernig munað er eftir atburðinum en að setja í brennidepil það sem er minnst.
Anne Whitehead, Trauma Fiction, Edinburgh: Edinburgh University Press, 2004,
bls. 3. Skrif Whitehead ríma sumpart við Dísusögu en þar er skipun atburða ekki
í tímaröð. Í sögunni er lögð mun meiri áhersla á áhrif trámans en trámað sjálft,
ástæðu þess og hvernig þess er minnst.
38 önnur einkenni sem greina má eru þunglyndi og skömm. Skömm og eftirsjá koma
sterkt fram í þessum orðum Dísu: „Þegar ég hugsa til baka hefði ég átt að bíta.
Þegar ég hugsa til baka hefði ég átt að slá. Ég hefði átt að verja mig. Ég hefði ekki
átt að vera svona hrædd. Ég hefði átt að berjast. Ég hefði átt að blóðga. Ég hefði átt
að mergsjúga. Ég hefði átt að drepa. Þegar ég hugsa til baka hefði ég átt að rífa á
hol, núa djöfulsins drullunni upp úr blóðinu. Ég hefði átt að drepa.“ (102–103) Um
þunglyndið verður sérstaklega fjallað hér á eftir.
39 Vigdís Grímsdóttir, Dísusaga, bls. 317.