Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 42
„SAMBýLISKOnUR […] Í SAMA KROPPI, Í SAMA HöFðI, Í SAMA BLóðI“
55
vörðungu að komast að þegar hún stelst til þess á meðan „Gríms sefur eða er
ekki með réttu ráði“ (54).41 Fyrir vikið ræðir hún gjarnan um hvernig Gríms,
allt frá því hún varð til, hefur talið sig sterkari aðilann í sambandinu og því
meinað Dísu að hafa sig frammi samanber þessa lýsingu:
Jú, ég hef hingað til verið að mestu baksviðs í persónuleikadjúpinu
þar sem Gríms hefur vægðarlaust haldið mér niðri með harðri
hendi og til þess notað öll heimsins kvalráð, einsog til dæmis að
hengja mig upp á hælunum í holunni svo eitthvað sé nefnt. Það
mætti búa til heilt hryllingssafn í kringum aðferðirnar sem hún
hefur notað til að níðast á mér, en ég ætla ekki að velta mér upp úr
því. (57, leturbr. mín)
Eins og sést notar Dísa óspart líkingamál til að útskýra valdbeitingu Gríms
og sýna hvernig níðst hefur verið á henni og rödd hennar markvisst verið
þögguð niður. Ein líking er henni sérlega töm en sú felst í því að hún kallar
íverustað sinn einatt holuna en myndin sem hún dregur upp af þeim stað er
síður en svo aðlaðandi:
Holan mín, holan mín.
Ég verð bara að hafa fáein orð um hvað Gríms finnst fallegt að
kalla svörtu holuna mína Þagnarlandið einsog þú tókst kannski eftir
að hún nefndi hana svo hátíðlega í kaflanum sínum. Ég vona að
minnsta kosti að þú hafir tekið eftir því vegna þess að það lýsir
þessari fyrrverandi ástkonu þinni svo einstaklega vel. Það er henni
sem sé svo eðlilegt að kalla holuna mína Þagnarlandið af því að henni
hefur alltaf verið svo lagið að breyta ásýnd hlutanna og dubba þá
upp í alls konar millibleikan skrautvefnað; crème de la crème.
Þagnarlandið!
Hvílíkt rangefni á dimmu, djöfulsins holunni minni. (81, leturbr. mín)
41 Lýsingar á Dísu og Gríms kallast sumpart á við lýsingar á Mörtu og Maríu, persónum
Svövu Jakobsdóttur í smásögunni „Gefið hvort öðru... “ í samnefndu smásagnasafni.
Marta og María eru tveir hausar sem deila hálsi og þar með líkama. Í sögunni segir
m.a.: Móðir hennar [María] hafði einu sinni trúað henni fyrir því að nokkuð hefði
sér fundist erfitt í fyrstu að hafa tvö höfuð. Þau höfðu þvælst hvort fyrir öðru, jafnvel
deilt harkalega stundum því að bæði vildu snúa fram en það var náttúrlega ekki
hægt, enda óþarfi þar sem þau væru sjaldnast ávörpuð í einu. nema þá á opinberum
skrifstofum. En með tímanum hefði sér tekist að ná stjórn á þeim; það var komin á
þau regla, höfuðin tvö, og þau gerðu sig nú ánægð með einn og sama hálsinn. Svava
Jakobsdóttir, „Gefið hvort öðru... “, Gefið hvort öðru…, Reykjavík: Iðunn, bls. 7–18,
hér bls. 11–12.