Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 8
ÁBYRGAR KONuR OG SjÚKIR KARLAR
21
mælendum að segja frá sinni reynslu með eigin orðum.36 Blandaðar aðferðir
þjóna líka hlutverki margprófunar (e. triangulation), en margprófun eykur
réttmæti niðurstaðna rannsókna.37
Rýnihópaviðtölin voru við háskólanema, konur og karla á aldrinum 20–
30 ára. Stúdentarnir voru í námi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík
og Listaháskóla Íslands þegar viðtölin voru tekin. Við val á þátttakendum
var stuðst við markvisst úrtak en þá eru þátttakendur valdir með rannsóknar-
spurninguna í huga. Þeir þurftu að vera á tilteknum aldri, stunda nám innan
ólíkra námsleiða, deilda og skóla38 og reynt var að komast hjá því að þeir
þekktu hvern annan. Haft var samband við milliliði til að vísa á og nálgast
viljuga þátttakendur. Ákveðið var að hafa rýnihópana kynjaskipta þar sem
umræða um nauðganir getur verið viðkvæm fyrir þátttakendur og upplifun
karla og kvenna getur verið ólík. Í tveimur rýnihópum karla voru fjórir og
sex þátttakendur, og í tveimur rýnihópum kvenna voru fimm og þrír þátttak-
endur. Leitast var við að hafa kynjahlutföllin jöfn en vegna forfalla tveggja
kvenkynsþátttakenda voru færri konur í rýnihópunum. Viðtölin fóru fram í
fundarherbergi á Þjóðarbókhlöðunni.
Tekin voru hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við þrjá brotaþola nauðgana
sem höfðu kært nauðgun og sérfræðing sem starfar náið með brotaþolum.
Auk þess var tekið hálfstaðlað viðtalið við einn háskólanema til að þróa við-
talsramma fyrir rýnihópaviðtölin. Viðtöl við brotaþola og sérfræðinginn, allt
konur, höfðu þann tilgang að kortleggja upplifun brotaþola af því að kæra
nauðgun og fá innsýn í réttarvörslukerfið frá sjónarhóli þeirra sem leita rétt-
ar síns. Rætt var við brotaþola sem höfðu ekki fengið niðurstöðu í mál sín til
þess að fá sem skýrasta mynd af ferlinu, en niðurstaða málsins (niðurfelling,
sýkna eða sakfelling) getur litað upplifun fólks. Viðtölin voru tekin á vinnu-
stað, í heimahúsi og í fundarherbergi á Þjóðarbókhlöðu. Rýnihópaviðtölin
og hálfstöðluðu viðtölin voru á bilinu 55-120 mínútur. Viðtölin voru öll
hljóðrituð með samþykki viðmælenda. Þau voru afrituð orðrétt og öllum
persónurekjanlegum upplýsingum var eytt. Að lokinni afritun var upptökum
eytt og afrituðu skjölunum, sem töldu 350 blaðsíður, var eytt að rannsókn
lokinni.
36 Bruce L. Berg, Qualitative research methods for the social sciences, Boston: Allyn &
Bacon, 2009, bls. 107.
37 Norman K. Denzin, „Strategies of multiple triangulation“, The research act in
sociology: A theoretical introduction to sociological method, ritstj. Norman K. Denzin,
New York: McGraw-Hill, 1970, bls. 297-313.
38 Sóley S. Bender, „Rýnihópar“, bls. 86-87.