Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 260
ÁHRIF SIðBóTARInnAR Á ÍSLAnDI
257
þjóðlífsins. Hin felst í að flesta jákvæða þætti nútímavæðingar megi rekja til
hennar.
Þess er ekki að vænta að siðbótin hafi í grundvallaratriðum haft önnur
áhrif á Íslandi en annars staðar í lútherska heiminum. Þeim kann á hinn
bóginn að hafa verið öðruvísi háttað hérlendis en á kjarnasvæði lúthersku
siðbótarinnar í norðanverðu Þýskalandi og jafnvel víða á norðurlöndum.
Á 16. öld var landið fjarlæg hjálenda Danakonungs á jaðri konungsríkisins.
Þess vegna réri konungur öllum árum að því að siðaskipti yrðu á landinu
sem fyrst eftir að þau höfðu orðið í þungamiðju ríkisins og að áhrif siðbótar-
innar yrðu sem líkust því og gerðist annars staðar í ríkinu.6 Vald konungs
var þó enn takmarkað hér á siðaskiptatímanum en fór í vöxt ekki síst á 17. og
18. öld. Hér var ennfremur við lýði fámennt og dreifbýlt kvikfjárræktarsam-
félag sem greindi sig mjög frá því borgar- og háskólaumhverfi sem siðbótin
var upprunnin í en hún höfðaði ekki síst til embættis- og menntamanna
auk vaxandi borgarastétta. Uppskipting fólks í stéttir var líka allt önnur en
víðast annars staðar á lútherska svæðinu. Embættis- og menntamenn voru
fáir og voru einkum í þjónustu kirkjunnar. Borgarastéttir, verslunar- og
handverksmenn, var heldur ekki að finna í landinu. Í stórum dráttum vann
öll þjóðin að landbúnaði og fiskveiðum sem enn voru ekki sundurgreindir
atvinnuvegir heldur samtvinnaðir í mismiklum mæli eftir árstíðum.7 Þessi
samfélagslega sérstaða leiddi til að á siðaskiptatímanum líkt og á mörgum
öðrum breytingaskeiðum myndaðist misgengi á ýmsum sviðum milli Íslands
og a.m.k. þéttbýlli hluta danska ríkisins.8 Þessar ytri eða hagrænu aðstæður
valda miklu um að breytingaferlið á siðaskiptatímanum horfði öðruvísi við
hérlendis en á þéttbýlli svæðum þar sem samfélagsþróun gengur almennt
örar fyrir sig.9 Á hinn bóginn er ástæða til að ætla að þróunin á strjálbýlli
6 Siðaskipti er hér notað um þau trúarpólitísku hvörf er lúthersk kirkjuskipan var lög-
fest hér og þar með formlega komið á lútherskri kirkju í landinu.
7 Hér er litið svo á að fulltrúar konungs í landinu hafi verið lénsmenn fremur en emb-
ættismenn þar til landið var gert að amti í Danaveldi 1683. Sjá síðar.
8 Þetta kom m.a. fram í að textar af ýmsu tagi voru í þýðingum aðlagaðir að inn-
lendum aðstæðum t.d. með úrfellingum. Einnig var leitast við að aðlaga fyrirmæli
efnislega að innlendum aðstæðum. Hjalti Hugason, „Evangelisk traditionalism —
Gudbrandur Thorlákssons konsolideringssynoder under 1570- och 1590-talen“,
Reformationens konsolidering i de nordiska länderna 1540–1610, ritstj. Ingmar Brohed,
án útgst.: Universitetsforlaget, 1990, bls. 96–118. Torfi K. Stefánsson Hjaltalín,
Siðaskiptin á Íslandi 1541–1542 og fyrstu ár siðbótar: Kirkjuskipan Kristjáns III. Dana-
konungs, Gissur Einarsson biskup og Skálholtsstaður, Reykjavík: Flateyjarútgáfan, 2017,
bls. 22, 135, 163, 164–165.
9 Sjá Loftur Guttormsson, „Áhrif siðbreytingarinnar á alþýðufræðslu“, Lúther og ís-