Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 44
„SAMBýLISKOnUR […] Í SAMA KROPPI, Í SAMA HöFðI, Í SAMA BLóðI“
57
nöfnin tvö draga fram einstaklingsbyrðina sem ræðst af ólíkri stöðu Dísu
og Gríms því að líkingarnar sem þær nota eru samfélagslega markaðar.44 Í
sömu mund sýna þær þversögnina innra með persónunni sem þær eru hluti
af. Líkingin Þagnarlandið er írónísk en hún vísar ekki aðeins í holuna sem
Dísa býr í heldur má einnig hafa hana um Ísland á tímum þar sem nauðgun
er tabú. Vinnan með nafnið í bókinni sýnir að þögnin heldur ekki bara
verndarhendi yfir þeim sem beita ofbeldi heldur hindrar að þeir sem fyrir
því verða geti náð sér eftir það.45 Samfélagið bregst Dísu svo hún þegir um
nauðgunina sem verður eins og neikvætt afl innra með henni. Staðreyndin
er þó sú að hún vildi á sínum tíma upplýsa vinkonur sínar um glæpinn en
Gríms kom í veg fyrir það:
Mig langaði að segja þeim þetta allt saman en Gríms kom í veg
fyrir það með því að sauma fyrir munninn á mér með svörtum,
grönnum vír. Þess vegna talaði ég aldrei við yndislegu vinkonur
mínar vegna þess að kæmist ég til þeirra var það í þeirri þögn sem
Gríms kallaði jafnvægi.
– nú ertu að fiska eftir samúð, gerirðu þér enga grein fyrir hvað
þú ert asnaleg, Dísa?
– Þegiðu bara, ég er bara ég sjálf, Gríms, þér hefur ekki tekist að
sauma fyrir kjaftinn á mér aftur, það tók mig tvö ár að plokka burt
saumana þegar ég var unglingur, í tvö ár grét ég mig í svefn hverja
einustu helvítis nótt af því að þú leyfðir mér ekki að gera það sem
var rétt. (bls. 181–182)
Ástæðu þess að Gríms vill þegja og halda Dísu niðri í holunni eða Þagnar
landinu má auðvitað rekja til þess að samfélagsviðmiðin hafa haft sín áhrif.
Samkvæmt McFarlane og van der Kolk fær einstaklingur hvorki utanað
44 Sjá umfjöllun George Lakoff og Mark Johnson um samfélagslega markaðar líkingar;
t.d. sama heimild, bls. 4–5.
45 Í sögunni kemur fram að Dísu hafi verið nauðgað þegar hún var tæplega ellefu ára
eða árið 1964. Í kaflanum sem Dísa greinir frá ofbeldinu ræðir hún um þöggun
og segir meðal annars: „Flóttinn frá staðreyndum liggur einfaldlega í orðræðu og
menningu fortíðarinnar. Þú kannast við þessar ráðleggingar, er það ekki? Ekki segja
frá þessu, ekki tala um þetta, ekki fara lengra með þetta, ekki vera svona, ekki hugsa
svona, ekki gapa um það sem þér finnst, berðu sorg þína í hljóði, ekki láta neinn vita
af þessu, haltu þessu fyrir þig, geymdu þetta með sjálfum þér, þögnin er gulls ígildi
og bla bla bla. Og orðræðan var viðurkennd, og vegsömuð, og menningin þótti
gild einsog hún var og engin ástæða til að amast við því sem alltaf hafði verið, enda
þótt vaninn væri hvorki hreinn né beinn né sannleikanum samkvæmur og stundum
hreinlega stórhættulegur heilu fjölskyldunum.“ (112)