Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 114
„HANN ER BARA Á VONDuM STAð“
127
(eða fallus) sem togar hann til sín.89 Þegar mannsheilinn er kominn á netið
má, líkt og Stephen Hawking gefur til kynna, sjá fyrir sér hvernig turninn
þröngvar sér ekki einungis inn í tækin okkar, heldur brýtur hann sér leið
inn í líkamann.90 Enda er skýr hliðstæða dregin upp á milli morðingja og
masturs þegar Gunnar sér Grétar gamla þjóta framhjá Gufuskálum þar sem
Einar stendur við veginn. Rauður Suzuki jeppi óþokkans nálgast frá vinstri
og Gunnar fylgist með honum aka út úr rammanum hægra megin. um leið
og bifreiðin hverfur kemur mastrið í brennidepil í hans stað. Gunnar slítur
augun af bílnum og horfir hægt upp eftir turninum. Tengslin eru mynduð.
Það er heldur engin hending að stefnumótaforritið Grindr (eða sambæri-
legt) leiddi Einar og árásarmanninn saman því forritið notast líka við stað-
setningartæki.91 Þegar Gunnar, kominn í Rökkur, opnar tölvu Einars og
finnur hann á skjánum, má líka líta svo á að stafræna landslaginu sé hlaðið
niður í huga hans. Þó að fyrrverandi elskhugarnir séu ekki á sama tilverustigi
eru þeir tengdir á ný þar sem tölvan geymir afrit af því hvert Einar hefur
ráfað og Gunnar hringsólar því um í rafrænum fótsporum hans. Gunnar
segir nýja kærastanum sínum, áður en hann heldur í ferðina á Snæfellsnesið,
að Einar sé „bara á vondum stað“ og ef marka má skilgreiningu Stephens
Kings dvelur Gunnar nú í reimleikahúsinu með honum.92
89 Á hæðinni stóð fjarskiptaturn sem gegndi því hlutverki að láta íbúa borgarinnar vita
um skipasiglingar um Golden Gate sundið. Alfred Hitchcock vildi að Coit-turninn
sæist út um gluggann úr íbúð Scottys, aðalpersónu kvikmyndarinnar Vertigo, því
hann vildi að atriðið sýndi fallusartákn, sjá Dan Auiler, Vertigo; The Making of a
Hitchcock Classic, New York: St. Martin’s Press, 1998, bls. 101. Nafn turnsins tengist
auk þess kynlífi, en orðið coitus merkir samfarir eða kynmök.
90 Í þessu tilliti má nefna að bókmenntafræðingurinn Pamela Thurshwell tengir
dulræn fyrirbæri eins og fjarskynjun og leiðslu líkingum sem notaðar voru um vísindi
í fjarskiptum og símatækni undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. Hinar nýju
uppgötvanir tóku báðar til einhvers konar samskipta úr fjarlægð og vöktu ótta við
smit. Að sama skapi má segja að smitið sem á sér stað í gegnum snjalltækin er innrás
sem felur í sér ofbeldisverknað. Með því að logga okkur inn opnum við fyrir aðgang
plágunnar. Sjá Pamela Turchwell, Literature, Technology and Magical Thinking, 1880-
1920, Cambridge: Cambridge university Press, 2001, bls. 35.
91 Þess má geta að spjallrásir í árdaga og stefnumótasmáforrit samtímans hafa verið
sérstaklega vinsæl meðal samkynhneigðra karla, en rannsóknir gefa til kynna að
næstum 70% sambanda bandarískra homma hefjist á netinu. Sjá t.d. M. J. Rosenfeld
og R. J. Thomas, „Searching for a Mate: The Rise of the Internet as a Social
Intermediary“, American Sociological Review 77: 4/2012, bls. 523–547, hér bls. 532–
533, sótt 18. mars 2019 af doi:http://dx.doi.org/10.1177/0003122412448050.
92 Erlingur Óttar Thoroddsen, Rökkur.