Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 284
ÁHRIF SIðBóTARInnAR Á ÍSLAnDI
281
áttu biskupar að verða eins konar yfirprófastar er litu eftir starfi kirkjunnar
og leiddu það. Titill þeirra átti meira að segja að breytast og verða super-
intendent.102 Ekki er að sjá að þessi breyting hafi náð fram að ganga hér er
mesta umrótatímabilinu sleppti og biskupar á 16. og 17. öld hafa tæpast haft
mikið lakari félagsstöðu en miðaldabiskuparnir í Skálholti og á Hólum. nú
voru biskupar þó vissulega orðnir konungsskipaðir embættismenn. Eignir
biskupsstólanna voru þó skertar nokkuð einkum með jarðaskiptum. Ekkert
bendir á hinn bóginn til að sóknarskipan landsins hafi raskast við siðaskipti
eða að atlaga hafi verið gerð að hagkerfi sóknanna í kjölfar siðaskipta. Fá
rök voru enda fyrir slíku í siðbótarguðfræðinni.103 Loks má benda á að fjöldi
kirkna var í einkaeigu allt frá upphafi kristni í landinu og fram undir 1900.
Allsherjar eignaupptaka á jörðum sóknarkirkna hefði því ekki aðeins bitnað
á kirkjunum heldur ekki síður leikum jarðeigendum og hefði ugglaust heyrst
hljóð úr því horni hefði svo víðtækt eignarnám átt sér stað. Því skal fullyrt
að áhrif siðbótarinnar á eignastöðu og hagkerfi íslensku kirkjunnar og sam-
félagsins hafi oft verið stórum ofmetin.
Hér framar var drepið á að hlutverk prestsins í guðsþjónustunni breytt-
ist. Siðbótarmenn höfnuðu einnig þeim róttæka mun sem gerður var á
vígðum og óvígðum á miðöldum. Þess í stað var lögð áhersla á það sem
kallað hefur verið almennur prestdómur allra skírðra einstaklinga.104 Á nýaf-
stöðnu siðbótarafmæli var þetta atriði mörgum íslenskum guðfræðingum
hvað efst í huga. Sú túlkun kemur t.d. skýrt fram í viðamiklu riti dr. Gunnars
Kristjánssonar að kirkjuskilningur Lúthers hafi einmitt falist í að hann hafi
litið á kirkjuna sem grasrótarsamfélag eða söfnuð, þ.e. samfélag leikmanna,
en ekki sem hátimbraða stofnun undir styrkri stjórn presta. Auk þess álítur
Gunnar eins og fram er komið að Lúther hafi með hugmyndum sínum um
almennan prestdóm sett fram róttæka kenningu um almennt lýðræði.105 Í
102 „Den danske kirkeordinans, 1539 („Den rette ordinants“)“, Kirkeordinansen
1537/1539: Tekstudgave med indledning og noter ved Martin Schwarz Lausten, Kaup-
mannahöfn: Akademisk forlag, 1989, bls. 150–244, hér bls. 218–222.
103 Höfundi er kunnugt um eitt dæmi þar sem nýr eignaskiptasamningur var gerður
milli kirkju og jarðeiganda á siðaskiptatímanum sökum þess að kirkjan var talin eiga
eignir langt umfram rekstrarþörf hennar. Íslenzkt fornbréfasafn XIII, bls. 92–94.
104 Þessarar kenningar sér m.a. stað í ritinu Um frelsi kristins manns. Marteinn Lúth-
er, „Um frelsi kristins manns“, Marteinn Lúther: Úrval rita I, aðalþýðandi Gunnar
Kristjánsson sem jafnframt bjó ritin til útgáfu, ritstj. Arnfríður Guðmundsdóttir
o.a., Reykjavík: nefnd um fimm alda minningu siðbótarinnar, Skálholtsútgáfan,
2017, bls. 173–197, hér bls. 176–177, 183–186, 189, 195–196.
105 Gunnar Kristjánsson, Marteinn Lúther: Svipmyndir úr siðbótarsögu, bls. 393, 398.