Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 23
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
36
ábyrgir gjörða sinna. Brotaþolar spegla sig í ríkjandi hugmyndum og upp-
lifa sig annars flokks. Auk þess setur samfélagið konum reglur, sniðnar að
ríkjandi hugmyndum sem ríma ekki við raunveruleikann. Slíkar reglur næra
ótta kvenna, stýra þeim og skerða frelsi þeirra. Reglurnar og óttinn viðhalda
ójafnri stöðu kvenna og karla í samfélaginu.86
Konur eru, með þátttöku sinni í baráttuhreyfingum (s.s. #höfumhátt,
#metoo), að láta í ljós að þeim er nóg boðið og með aðgerðum sínum vekja
þær athygli á hárri tíðni kynferðisofbeldis og áreitni og sætta sig ekki við
þöggun samfélagsins og aðgerðarleysi stjórnvalda. Orðræðan er e.t.v. að
breytast og kannski kallar það á aðgerðir, Alcoff og Gray-Rosendale vara þó
við bjartsýni í þeim efnum og benda á að kynjakerfið finni alltaf nýjar leiðir
til að endurheimta orðræðuna.87
Þrátt fyrir að konur hafi verið í forsvari baráttuhreyfinga gegn nauðg-
unum og að nauðgunarmenning bitni verr á konun en körlum, þá endur-
speglast í viðhorfum þátttakenda rannsóknarinnar að konur jafnt sem karlar
viðhaldi kynjakerfinu og nauðgunarmenningu. Það er því ekki nóg að brota-
þolar stígi fram og samfélagið leggi við hlustir. Nauðgunarmenning er rót-
gróið fyrirbæri og það þarf meira átak til að hrófla við grunngerð samfélags-
ins.88 Buchwald, Fletcher og Roth benda á að nauðgunarmenning sé í raun
aðeins túlkun á gildum og viðhorfum sem hægt er að breyta.89 Til þess þarf
„að skora á hólm ríkjandi hugmyndir og viðmið um kynverund og kyngervi
sem afsaka nauðganir, eða jafnvel gefa þeim rómantískan blæ, og líta á þær
sem hluta af löngunum eða staðlaðri karlmennsku, eða óhjákvæmlega af-
leiðingu af ákveðnum samskiptum eða aðstæðum“.90 Samfélagið í heild þarf
að skoða ríkjandi gildi og hegðun, en nauðgun er aðeins ein birtingarmynd
af því viðhorfi að konur séu ekki jafnar körlum. Því gæti almenn jafnréttis-
fræðsla og kynfræðsla í grunnskólum skilað árangri líkt og kallað er eftir
núna í kjölfar #metoo hreyfingarinnar.91
86 Finnborg S. Steinþórsdóttir og Gyða M. Pétursdóttir, „Það er svo óþolandi”, bls.
7-8.
87 Linda Martín Alcoff og Laura Gray-Rosendale, „Speaking “as”“, Rape and resistance,
ritstj. Linda Martín Alcoff, Cambridge. Medford, MA: Polity Press, 2018, bls. 187.
88 Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Gosvirkni í íslenskri kvennabaráttu“, bls. 5.
89 Emilie Buchwald o.fl., Transforming a rape culture, bls. xi.
90 Linda Martín Alcoff, Rape and resistance, bls. 10.
91 Fríða Rós Valdimarsdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, jóhanna Heiðdal, Marí-
anna Traustadóttir og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Samtal við #metoo konur: Hvað getum
við gert?, Reykjavík: Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kenn-
arasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands, 2018, bls. 4.