Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 135
HAUkUR INGvARSSON
148
Tveir bastarðar
Í Suðurríkjum Bandaríkjanna eru kynþáttafordómar rótgrónir. Á tímabilinu
1882-1927 voru t.a.m. 3.513 svartir karlmenn fórnarlömb múgmorða (e.
lynching) og 76 konur.37 Múgmorðin beindust að karlmönnum vegna þess
að kynhvöt þeirra átti að vera stjórnlaus, sérstaklega þegar hvítar konur voru
annars vegar. Ef grunur lék á að kynferðisbrot hefði verið framið var það
ekki skoðað sem einangrað fyrirbæri heldur yfirfært á samfélagið í heild og
fórnarlambið var tákngert fyrir þá ógn sem steðjaði að menningu hvítra.38
Litarhaft var óvéfengjanleg sönnun um óæðri uppruna en fleiri atriði gátu
gefið vísbendingu um að einstaklingur hefði svart blóð í æðum. Slíkar vís-
bendingar hafa verið nefndar kynþáttamörk (e. racial marker) og gátu t.d.
falist í hári, húð, augum, tali, klæðaburði eða hegðun.39 Í hverju og einu
samfélagi geta kynþáttamörkin verið ólík; í sumum tilvikum tengjast þau
jákvæðum þáttum en í öðrum neikvæðum. En þau eru notuð til að flokka og
aðgreina þá æðri frá hinum óæðri.
Í skáldsögu Faulkners Ljósi í ágúst er óljós uppruni hins dularfulla Joes
Christmas í brennidepli. Christmas er hvítur á hörund en samfélagið tengir
ýmislegt í háttalagi hans og líkamsgerð við svarta. Af þessum sökum fara
hviksögur um uppruna hans á kreik hvar sem hann kemur. Christmas bregst
við með því að sveipa líf sitt dulúð. Hann bruggar m.a. á laun og á í leynilegu
ástarsambandi við ógifta konu, Joanna Burden. Hún lifir á jaðri samfélags-
ins í Jefferson vegna þess að fjölskylda hennar kom frá Norðurríkjunum á
tímum enduruppbyggingarinnar eftir borgarastríðið og studdi afnám þræla-
halds. Samband þeirra kemst upp eftir að Joanna finnst skorin á háls í brenn-
andi húsi sínu sem leiðir til þess að Christmas er geldur og tekinn af lífi án
dóms og laga. Þrátt fyrir hrikaleik glæpsins, sem hann er sakaður um, er af-
takan fyrst og fremst afleiðing af meintu litarhafti hans. Eldsvoðinn á heimili
Burdens er þungamiðja atburðarásarinnar því reykjarsúlan sem teygir sig
upp til himins sést víða að og verður að skurðpunkti ólíkra frásagna. Á sama
tíma vekur hún upp spurningar um hvað brenni, orsakir þess og möguleg
fórnarlömb (LA 437). Með þessum hætti magnast upp spenna og smám
saman leiðir sagan lesandann að eldsupptökunum frá sjónarhorni ólíkra
37 Adam Gussow, Seems like Murder Here: Southern Violence and the Blues Tradition,
Chicago: The University of Chicago Press, 2002, bls. 18.
38 Deborah Barker, „Moonshine and Magnolias: The Story of Temple Drake and the
Birth of a Nation“, The Faulkner Journal 22: 1-2/2006, bls. 140-65, hér bls. 142.
39 Werner Sollors, Neither Black nor White yet Both: Thematic Explorations of Interracial
Literature, New York/Oxford: Oxford University Press, 1997, bls. 151.