Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 105
SIGRÚN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
118
fortíðarinnar. Hann finnur til með hótelinu og gengur í þjónustu þess.
Skrímsli í skáldskap hegða sér að því leyti nákvæmlega eins og þau sem
við kunnum að mæta í raunveruleikanum, líkt og nýlegt dæmi ber vott um.
Í kvikmyndinni Leaving Neverland (2019) eftir leikstjórann Dan Reed lýsa
Wade Robson og James Safechuck því hvernig Michael Jackson misnotaði
þá þegar þeir voru börn. Eitt af því sem einkennir sögur þeirra sem fram
komu er að ímynd Jacksons — poppgoðsagnar og sérstaks velgjörðarmanns
barna um allan heim — skekkti hugmyndir fólks um hann í holdinu.53 Þann-
ig orkar frægðin ekki aðeins sem öngull heldur einnig sem gríma barna-
níðingsins. Í reimleikahúsinu sem fjallað er um í Rökkri getur gamli bóndinn
einnig tekið sér nýjan ham og falið sig á bak við falsandlit til að krækja í
fórnarlömb, eða með orðum Einars: „svo var hann bara ekki sá sem hann
sagðist vera“. Í þessu samhengi má líta á netið sem nokkurs konar ,hvergi-
land‘ þar sem hægt er að vera „enginn“ eða hver sem er.
Línur og skjáir eru andagáttir
Áður en lesendur verða leiddir inn í aðalreimleikahúsið skal tæpt á fáeinum
atriðum um vensl hins yfirnáttúrulega við framþróun í tækni. Tækninýj-
ungar hafa um aldabil verið tengdar draugagangi og litið á gáttir eins og
símtól, útvarp og skjái — ekki síst í krafti líkinga — eins og glugga yfir í
annan heim.54
Eðlisfræðingurinn Oliver Lodge hélt því fram seint á 18. öld að fólk
upplifði fjarskynjun og draugagang með nokkurs konar orkusendingum sem
tengdi huga lifandi manna – og jafnvel látinna. Með öðrum orðum væri
mannshugurinn nokkurs konar sendir og móttakari sem næmi boð, knúin
af orku sem bærist um í bylgjum eða straumum. Draugar gætu gert vart við
53 Sem dæmi nægir að nefna Heal the World góðgerðarsamtökin sem Jackson stofnaði
árið 1992 en þau beittu sér einna helst fyrir því að bæta aðstæður barna um allan
heim.
54 um rýmislíkingar og gáttir hefur Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallað í greininni
„Óvistlegar herbergiskytrur: um rými og annan hluta bókarinnar Af manna
völdum“, Rúnir: Greinasafn um skáldskap og fræðistörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, ritstj.
Guðni Elísson, 2010, Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 31–50, hér bls. 33. Hún ræðir
til dæmis um kenningar Hilary Dannenberg, sem telur að gluggar og gáttir hafi
mikil áhrif á það hvernig fólk skynjar rými. Gluggar og gáttir tengja rýmin sem fólk
dvelur í og gera fólki kleift að sjá og komast á milli herbergja og bygginga en veita
þó ekki síst aðgang að umheiminum. Sjá Hilary Dannenberg: „Cognitive Magical
Objects: Windows as Key Image Schemata“, Magical Objects, ritsj. Elmar Schenkel
og Stefan Welz, Leipzig: Galda+Wilch Verlag 2007, bls. 181–192, hér bls. 182.