Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 57
GUðRÚn STEInÞóRSDóTTIR
70
sem eru alltaf á öndverðum meiði. Sumir gagnrýnendur bókarinnar töldu
rifrildi Gríms og Dísu trufla flæði verksins og vera of langdregin.67 Slík við
horf sýna vel óþægindin sem gagnrýnendur hafa upplifað við lesturinn en
listfengi bókarinnar ræðst meðal annars af því að vegna stöðugra framígripa
raddanna tveggja í verkinu fær lesandi, að hluta, að upplifa sársaukafullar
afleiðingar ofbeldisins sem Dísa varð fyrir. Lesandi kann því að öðlast betri
skilning á lífi Dísu og Gríms en ekki síst sviðsettrar Vigdísar Grímsdóttur.
Staðreyndin er nefnilega sú að þó Dísusaga sé ekki fantasía þar sem óskir
geta ræst, eins og í Gauta vini mínum, er sagan engu að síður sjálfsþerapía
því hún er aðferð til að fella tiltekna reynslu í orð, skilja hana og fá aðra til
að sýna henni skilning.
Ein aðferð sem hefur verið notuð í sálfræðimeðferðum er svo kölluð
„tveggja stóla samræða“ (e. two–chair dialogue) en hún rímar vel við klofn
inginn og frásagnaraðferðina í Dísusögu því hana má nota til að útskýra
samræðuferli raddanna tveggja, Dísu og Gríms. Eins og í kenningunni um
samræðusjálfið er í þessari aðferð gert ráð fyrir að sjálfið sé allavega tvískipt,
í því kunni að vera tvær ólíkar raddir sem takast á.68 Aðferðin er notuð í sál
fræðimeðferðum þegar ráðgjafinn áttar sig á því að átök á milli ólíkra hluta
sjálfsins skapa streitu hjá skjólstæðingnum en í stuttu máli felst hún í því
að hann færir sig beinlínis á milli tveggja stóla eftir því hvaða rödd sjálfsins
67 Ingveldur Geirsdóttir, „Að reyna að elska sjálfan sig og aðra“, Morgunblaðið,
29. nóvember 2013 og Þórdís Edda Jóhannesdóttir, „Eins og gult og svart“. Þó
Þórdís gagnrýni framígripin bætir hún við mikilvægri athugasemd um gildi þeirra:
„Samræður þeirra gera það þó að verkum að lesandinn neyðist til að taka þátt í
klofningnum. Lesandanum er kippt út úr frásögninni og í staðinn smýgur naggið
í þeim stöllum inn í höfuð hans og eykur ef til vill skilning á aðstæðum Dísu og
Gríms.“ Sama heimild.
68 Aðferðin var fyrst notuð árið 1955 af Blue Carstenson en hefur verið innlimuð
í ýmsar aðrar gerðir meðferða í gegnum árin en meðal annars hefur henni verið
spyrnt saman við kenninguna um samræðusjálfið. Sjá t.d. Blue Carstenson, „The
auxiliary chair technique – a case study“, Group Psychotherapy, 1955, bls. 50–56;
William J. Whelton og Leslie S. Greenberg, „From discord to dialogue: internal
voices and the reorganization of the self in processexperiential therapy“, The
Dialogical Self in Psychotherapy, ritstj. Hubert J.M. Hermans og Giancarlo Dimaggio,
new York: BrunnerRoutledge, 2005, 108–123. Í inngangi að greinasafninu The
Dialogical Self in Psychotherapy: An Introduction segja ritstjórarnir Hubert J. M.
Hermans og Giancarlo Dimaggio að í gegnum tíðina hafi menn verið að vinna með
svipaðar hugmyndir um samræðusjálfið en þó undir ólíkum nöfnum og misjöfnum
formerkjum. Hubert J. M. Hermans og Giancarlo Dimaggio, „The dialogical self
in psychotherapy: introduction“, The Dialogical Self in Psychotherapy, ritstj. Hubert
J. M. Hermans og Giancarlo Dimaggio, new York: BrunnerRoutledge, 2005, bls.
1–10, hér bls. 5.