Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 270
ÁHRIF SIðBóTARInnAR Á ÍSLAnDI
267
Siðaskipti og siðbreyting
Augljósustu og yfirgripsmestu áhrifin af starfi Lúthers og annarra siðbótar-
manna á 16. öld fólust í að kirkjan í Þýskalandi og í framhaldinu víðar um
norðanverða Evrópu klofnaði í ólíkar kirkjudeildir: rómverk-kaþólska, ang-
líkanska og kalvínska eða reformerta auk hinnar lúthersku. Starf hinna ýmsu
siðbótarfrömuða skipti þar vissulega meginmáli en einnig margháttuð pól-
itísk eða jafnvel persónuleg málefni eins og hjúskaparmál Englandskonungs
svo dæmi sé tekið af anglíkönsku siðbótinni.
Í framhaldinu lögfestu svo ríki, borgir eða önnur sjálfsstjórnarsvæði
kristindómstúlkun innan sinna vébanda sem sótt var til einhverrar af þessum
nýju kirkjudeildum. Afleiðingin varð sú að hin sameinaða miðalda-kaþólska
Evrópa eins og hún hafði þróast frá miðri 11. öld klofnaði upp í kirkju-
deildarlega skilgreind játningaríki (e. confessional state) og ríkiskirkjur sem
mynduðu tvær samhverfar stofnanir sem studdu hvor aðra og lutu a.m.k.
í ytri kirkjumálum stjórn sama fursta, borgarráðs eða annars þess sem fór
með æðstu veraldlegu völd á svæðinu. Þessi trúarpólitíska þróun kallast hér
siðaskipti. Í þröngri merkingu rúmar það heiti þó tæpast þróunina á þeim
svæðum sem héldu tryggð við vald páfa í andlegum efnum þótt sambæri-
legar breytingar yrðu þar víða á sambandi ríkis og kirkju.52 Hér er heitið
þó látið ná yfir trúarpólitískar breytingar í Evrópu á 16. öld hvort sem þær
urðu í löndum mótmælenda eða hinum rómversk-kaþólska hluta álfunnar. Í
greininni nær það því bæði til þess sem á ensku kallast reformation og counter-
reformation en á síðari áratugum er síðara fyrirbærið líka oft nefnt catholic
reformation.53
Helsta einkenni siðaskiptanna í þessari útvíkkuðu merkingu felst í sam-
runa ríkisvalds og kirkjustjórnar a.m.k. í ytri málum. Sú þróun mótaðist af
tveimur mikilvægum forsendum en auk siðbótarinnar og viðbrögðum valda-
stéttanna við henni skipti framkoma miðstýrðs ríkisvalds á kostnað lénskerfis
fyrri alda sköpum í þessu efni.54 Af þessum sökum er ekki mögulegt að líta
52 Hjalti Hugason, „Heiti sem skapa rými: Hugleiðing um heiti og hugtök í siðaskipta-
rannsóknum“, Ritið 3/2014, bls. 192–229, hér bls. 225–228.
53 Per Ingesman, „Kirke, stat og samfund i historisk perspektiv“, Den nordiske protes-
tantisme og velfærdsstaten, ritstj. Tim Knudsen, Århus: Center for europæisk kirkeret
og kirkekundskap, Aarhus Universitetsforlag, 2000, bls. 65–86, hér bls. 80. Sjá og
Carsten Bach-nielsen, „1500–1800“, bls. 163.
54 Robert von Friedeburg, „Church and State in Lutheran Lands, 1550–1675“, Lut-
heran Ecclesiastical Culture, 1550–1675, ritstj. Robert Kolb, Brill´s Companions to
the Christian Tradition: A series of handbooks and reference works on the intellec-
tual and religious life of Europe, 500–1700 11, Leiden: Brill, 2008, bls. 361–410. Sjá