Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 15
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
28
und kvenna og karla, ungum körlum er umbunað fyrir að stunda kynlíf en
ungar konur sem gera slíkt hið sama mæta neikvæðu viðmóti eins og fjallað
var um hér á undan.58
Í orðum þátttakenda birtist hugmyndin um samskipti sem leik. Þóra
bendir á að „það er strákurinn sem á að elta okkur“. Karlar eru veiðimenn
sem eiga að elta bráðina. Þóra bendir einnig á að kona, „í flestum tilfellum“,
segir ekkert „jæja, ætlarðu ekki að sofa hjá mér núna“ og gefur það vísbend-
ingar um að í samfélaginu þyki bein orðaskipti um kynlíf ekki kynæsandi.
Skilaboð samfélagsins virðast vera á þann veg að fólk sem er í þessum hug-
leiðingum eigi að stíga dans veiðimannsins og bráðarinnar og samskiptin
milli þeirra eigi að vera dulúðleg. Í tengslum við þennan leik þá gildir sú
hugmynd að nei þýði nei - nema stundum þýði það já.59 Í orðum Sunnu
birtist hugmyndin um að konur sem segja „nei“ meini í raun „já“:
Ég held líka oft að strákar, kannski sumir fái stundum bara skilaboð
að eitthvað svona nei [...] eða þú veist, þeir gætu oft skilið það „en
ég meina það ekki“.
Þessi hugmynd um dulúðleg samskipti er rótgróin í samfélagi okkar. Hana
má m.a. sjá í vinsælum dægurlagatexta frá 1967, þar sem karl syngur: „segðu
ekki nei, segðu kannski, kannski, kannski“.60 Textinn varpar einnig ljósi á
hvernig suð og þrýstingur eru notuð til að þvinga fram samþykki eins og
endurspeglast í orðum Eddu hér að ofan. Þessar viðteknu hugmyndir geta
haft áhrif á brotaþola. Sérfræðingurinn bendir á að margir brotaþolar spegli
sig í þessum undirliggjandi hugmyndum, og þar af leiðandi kenni sjálfum
sér um nauðgunina:
Fólkið sem kemur hingað er uppfullt af fordómum og er uppfullt
af þessum mýtum. Þær kenna sjálfri sér um þetta. Þær tortyggja
sjálfa sig. „Var ég ekki of flott klædd, of sexý klædd, var ég að tæla
hann, eða sagði ég ekki nógu hátt nei eða, barðist ég ekki nógu
mikið á móti?“ Brotaþolarnir eru sjálfir uppfullir af þessum mýtum
58 Maddy Coy, Liz Kelly, Fiona Elvines, Maria Garner og Ava Kanyeredzi, ‘Sex without
a consent, I suppose that is rape’: How young people in England understand sexual consent,
London: The Children’s commissioner for England, 2013, bls. 2.
59 Nína Salvarar, „Kúrinn“, Vísir.is, 21. júlí 2013, sótt 8. apríl 2019 af https://www.visir.
is/g/2013130729907. Rannveig Sigurvinsdóttir, „„Þú veist þú vilt það“: Skýringar á
kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum“, bls. 158.
60 Sextett Ólafs Gauks og Svanhildar, Sextett Ólafs Gauks og Svanhildar – Segðu ekki nei,
SG-hljómplötur, 1967.