Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 259
HJALTI HUGASOn
256
gáfa flugrita af ýmsu tagi varð drjúg útbreiðsluleið fyrir hinar nýju hug-
myndir.3 Að þessu sinni varð þróunin því ekki stöðvuð og tók gjörningurinn
við Hallarkirkjuna fljótt að hafa ófyrirséð áhrif sem bæði ógnuðu páfa og
öðrum leiðtogum miðaldakirkjunnar en jafnframt Lúther sjálfum. Hann
hefur tæpast rennt grun í að atburðurinn mundi hafa önnur eins áhrif og
raun bar vitni enda hóf hann fljótt andóf gegn ýmsu sem í upphafi mátti
beint eða óbeint rekja til hans sjálfs.4
Í þessari grein og annarri sem á eftir fylgir verður grafist fyrir um hver
helstu áhrif Lúthers og siðbótar hans voru á nokkrum sviðum kirkju, sam-
félags og menningar hér á landi.5 Í fyrri greininni verður fengist við áhrif
siðbótarinnar á sviði trú- og kirkjumála. Í þeirri síðari verða áhrifin könnuð
á sviði menningar og samfélags. Ekki verður um tæmandi úttekt að ræða og
deila má um hver mikilvægustu áhrif Lúthers voru sem og á hvaða sviðum
þau sé helst að finna. Í þessu sambandi verður einkum höfð hliðsjón af
tveimur atrennum sem gerðar voru hér á landi til að meta þetta í tilefni af
nýafstöðnu siðbótarafmæli. Er önnur þeirra akademísk og upprunnin í Há-
skóla Íslands. Hin er fremur guðfræðileg og var gerð á kirkjulegum vettvangi
(sjá síðar). Sú fyrrnefnda er höfð til hliðsjónar til að afmarka helstu áhrifa-
svið siðbótarinnar hér á landi. Aftur á móti verður tekin efnisleg viðspyrna
í hinni síðarnefndu þegar áhrifin eru metin. Í greininni verður jafnframt
gerð grein fyrir tveimur alhæfingum sem settar hafa verið fram um áhrif sið-
bótarinnar og þess freistað að finna jafnvægi milli þeirra. Önnur gengur út á
að í kjölfar siðbótarinnar hafi hafist hér allsherjarhnignun á flestum sviðum
3 Gunnar Kristjánsson, „Marteinn Lúther: Maður orðsins“, Marteinn Lúther: Úrval
rita 1, aðalþýðandi Gunnar Kristjánsson sem jafnframt bjó ritin til útgáfu, ritstj.
Arnfríður Guðmundsdóttir o.a., Reykjavík: nefnd um fimm alda minningu sið-
bótarinnar, Skálholtsútgáfan, 2017, bls. 11–29, hér bls. 19–21.
4 Benda má á að í Wittenberg þróaðist siðbótarhreyfingin í of róttæka átt að mati
Lúthers meðan hann dvaldi í kastalanum Wartburg en þá kom til myndbrots auk
mikillar einföldunar á helgisiðum. Þá má benda á viðbrögð hans við bændaupp-
reisnunum í Þýskalandi. Bændurnir urðu fyrir áhrifum af kirkjugagnrýni Lúthers
og hann var upphaflega hliðhollur þeim. Síðar snerist hann gegn bændum og hvatti
yfirvöld í baráttunni gegn þeim m.a. vegna tengslanna sem hann taldi vera milli
þeirra og róttækra siðbótarmanna, t.d. T. Münzer (1490–1525). Carsten Bach-niel-
sen, „1500–1800“, Kirkens historie 2, Kaupmannahöfn: Hans Reitzels forlag, 2012,
bls. 17–381, hér bls. 56–61, 65–67.
5 Auk þeirra áhrifa sem hér verður fengist við og oftast eru langtímaáhrif gætti einn-
ig margháttaðra skammtímaáhrifa af siðbót og siðaskiptum sem mörg hver komu
fram í upplausn og óróleika eins og oft gerist á breytingaskeiðum. Sjá Hjalti Huga-
son, „Siðbót og sálarangist: Um ofbeldi, spennu, átök og hrun á siðbótartímanum“,
Skírnir 189: vor 2015, bls. 53–85.