Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 215
MARGRÉT GuðMunDSDóTTIR
212
Hins vegar má segja að hægt sé að skoða árangur Genie frá tveimur sjónar-
hornum og komast að ólíkum niðurstöðum sem báðar eiga þó rétt á sér.
Hann má túlka sem stórstígar framfarir eða lýsa útkomunni sem afar ófull-
komnu máli. Í fyrri skrifum Curtiss er lögð meiri áhersla á það sem Genie
gat, en í síðari skrifum á það sem hún gat ekki.51 Það er hins vegar gagnrýnis-
vert að Curtiss gerir enga grein fyrir sinnaskiptum sínum.
Sem dæmi um óskýra lýsingu má nefna að þótt Genie sé sögð mállaus í
fyrstu skrifum um hana, sbr. „she did not speak“,52 kemur annars staðar fram
að hún sagði nokkur orð.53 Þó að nokkur orð séu sannarlega ekki mál er á
þessu tvennu reginmunur, sem sést vel með samanburði við Victor. Hann
vissi hreinlega ekki hvað mál var. Í samræmi við þetta kom í ljós innan fárra
vikna frá því Genie fannst að hún gat greint málhljóð frá öðrum hljóðum.54
Í prófum sem síðar voru gerð þótti ljóst að mál hennar væri byggt á skipu-
lögðu hljóðkerfi, bæði túlkun hennar og tjáning.55 Í þessu sambandi er vert
að minna á að eftir því sem best er vitað var Genie orðin 20 mánaða þegar
hún var einangruð og eins og fram kom hér að framan þroskast hljóðskynjun
hratt á fyrstu mánuðunum. Genie var því ekki á „byrjunarreit“ þegar ein-
angrun hennar var rofin.
Þrátt fyrir þetta var framburður hennar afar langt frá eðlilegu tali og ekki
gott að greina milli málfræðilegra, líkamlegra og andlegra róta þess vanda.
Hún hafði lélega stjórn á talfærunum, átti í erfiðleikum með að tyggja og
kyngja, hafði ekki eðlilega stjórn á öndun þegar hún talaði og lélegt vald á
raddböndum. Henni hafði verið refsað fyrir að gefa frá sér hljóð og því bein-
línis lært að forðast það frekar en að læra að mynda hljóð.56 Fyrir utan þessar
líkamlegu afleiðingar er erfitt að meta þær andlegu, hindrunina sem þarf að
yfirstíga til að gera það sem manni hefur verið refsað fyrir jafnvel alla ævi. Ef
51 Víða er frekar tekið mið af síðari túlkun Curtiss og getu Genie lýst sem mjög
takmarkaðri, sjá t.d. Sigríði Sigurjónsdóttur, „Máltaka barna og meðfæddur
málhæfileiki“, bls. 115-116.
52 Susan Curtiss, Victoria Fromkin, Stephen Krashen, David Rigler og Marilyn Rigler,
„The Linguistic Development of Genie“, Language 50/1974, bls. 528–554, hér bls.
530.
53 Susan Curtiss, Genie: A Psycholinguistic Study, bls. 9; Susan Curtiss, „Dissociations
between language and cognition“, Journal of Autism and Developmental Disorders 11:
1/1981, bls. 15-30, hér bls. 19.
54 Sjá Susan Curtiss, Genie: A Psycholinguistic Study, bls. 53.
55 Sjá sama rit, bls. 53-92.
56 Susan Curtiss o.fl., „The Linguistic Development of Genie“, bls. 530, 532.