Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 219
MARGRÉT GuðMunDSDóTTIR
216
vert að ekki verður annað séð en Genie hafi þrátt fyrir allt komið sér upp
málkerfi sem lítil sem engin merki sáust um við 13 ára aldur – ófullkomnu
kerfi, en kerfi þó. Mögulegt er þó að einhver vísir að því frá fyrstu mánuð-
unum hafi búið í undirdjúpum hugans. Svo mikið er víst að þessu málkerfi
var enn að fara fram þegar Genie var 18 ára.74
Hvað segja þá þessar þrjár sögur af stálpuðum börnum sem stóðu frammi
fyrir því risaverkefni að tileinka sér mannlegt mál? Engin þeirra virðist
hrinda tilgátunni um markaldur fyrir máltöku því að ekkert þessara barna
náði fullum tökum á máli. Á hinn bóginn gætu verið fleiri skýringar á því;
óeðlileg skilyrði til almenns þroska og að auki veit enginn hver meðfædd
hæfni þessara barna var.75 Enn fremur er óljóst hvort þau hafi fengið eitt-
hvert máláreiti áður en þau fundust eða hve mikið það kann að hafa verið.
Að vissu leyti má því segja að sögur þeirra hafi gert okkur margs vísari um
óeðlilegt máltökuferli, en ekki gefið áreiðanlegt svar við spurningunni um
markaldur fyrir máltöku.
Síðbúin máltaka heyrnarlausra
Rannsóknir á síðbúinni máltöku heyrnarlausra gefa af ýmsum ástæðum ótví-
ræðari svör um markaldur en þessar sögur af heyrandi börnum og máltöku
þeirra. Heyrnarleysi hefur í gegnum tíðina – og hefur víða enn – iðulega
haft í för með sér skort á þeirri málörvun, eða máláreiti, sem er forsenda
eðlilegrar máltöku. Fyrir utan neikvæða afstöðu til táknmáls langt fram eftir
síðustu öld og áherslu á að heyrnarlausir lærðu raddmál er ástæðan einkum
sú að tiltölulega fáir heyrnarlausir fæðast inn í táknmálstalandi fjölskyldur.76
Þeir hafa því engan til að læra málið af í fyrstu og hafa ýmiss konar rann-
sóknir verið gerðar á máltöku þeirra eftir að þeir komast í tengsl við aðra
heyrnarlausa og fara að læra táknmál.
Rétt er að taka fram að ljóst hefur verið allt frá tímamótaskrifum Willi-
74 Peter E. Jones, „Contradictions and unanswered questions in the Genie case“, bls.
277.
75 Sjá Bruno Bettelheim, „Feral Children and Autistic Children“, bls. 455–463;
Jacqueline S. Johnson og Elissa L. newport, „Critical Period Effects in Second
Language Learning“, bls. 62.
76 Rachel I. Mayberry, „Early Language Acquisition and Adult Language Ability:
What Sign Language Reveals About the Critical Period for Language“, The Oxford
Handbook of Deaf Studies, Language, and Education, 2. bindi, ritstj. Marc Marschark
og Patricia Elizabeth Spencer, Oxford: Oxford university Press, 2010, bls. 281–291,
hér bls. 284; Rannveig Sverrisdóttir, „Orð eða mynd“, Ritið 1/2005, bls. 83–101, hér
bls. 84-88.