Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 36
Á r m a n n J a k o b s s o n
36 TMM 2007 · 1
handan hans, er í þeirri móðu sem við köllum stundum forsögulegan
tíma. Eins ákvað hún að segja þá sögu ekki sjálfstæða heldur sem hluta
af sögu sem gerist á níunda áratug 20. aldar.4 Skilaboðin eru þau að
goðsaga sé ekki liðin heldur sé hún sprelllifandi þáttur af veruleikanum.
Og það er einmitt það sem ég hyggst sýna fram á hér.
Goðsögur og samtími eru stór hugtök og verða ekki skýrð nema að
einblínt sé um sinn á smærri flöt í von um skilning. Ég hef valið eitt
dæmi og það er ekki valið af handahófi heldur er hér á ferð atvik úr
Gunnlaðar sögu sem ég veit að hreyfði ekki aðeins við mér heldur
ýmsum öðrum lesendum. Eitt af þessum atvikum úr skáldsögu sem les-
andinn getur ekki gleymt.
Það á sér stað í Kaupmannahöfn, eins og sagan öll. Á hótelherbergi
þar sem fín frú situr á köldu flísagólfi baðherbergisins. Í tugþúsund-
krónadragt og Ballyskóm og hefur gubbað í klósettskálina: „Gubbið
flaut í gulgrænni fitugri ógeðslegri skán ofan á vatninu, örsmáir pylsu-
bitar ofan á eins og fjöll í landslagi.“ Siðfágun og viðbjóður í sama litla
rýminu. Bæði fyrir frúna og lesendur verður hreinsun. Hún er með
óbragð í munninum og sektarkennd og það rennur upp fyrir henni að
héðan í frá er hún dæmd til að þegja yfir því sem mestu skiptir við mann
sinn „af því að ég var stödd í þriðja landinu: landi sektar með Dís, dótt-
ur minni. Þangað er ekki hægt að hringja beint.“5
2.
Í þessu litla atviki eru mörg lög þegar betur er gáð. Eins og iðulega í
sögum Svövu fléttast saman fjölmargir þræðir sem lesandinn þarf að
reyna að þætta í sundur og helst fylgja síðan hverjum og einum allt til
enda – þó að það sé eðli endans að vera alltaf svolítið lengra í burtu en
sýndist í fyrstu. En þó að skírskotanir séu í allar áttir er samt allt sára-
einfalt, eins og ævintýri eða kvæði eftir Jónas eða tónlist eftir Mozart.
Mig grunar að margir lesendur hafi einmitt hrifist af þessum einfald-
leika sem Svövu heppnaðist oft að fanga.
Fyrsti þráðurinn er kannski sá texti sem við köllum Kaupmannahöfn.
Borgin sem eitt sinn var höfuðborg Íslands. Hana þekkjum við. Sum
okkar fá heimþrá þegar við sjáum myndir þaðan og þurfum ekki að hafa
búið þar lengi til þess. Nokkrir mánuðir duga ef maður er ættaður þaðan
– rétt eins og að ef einn langafi var sjómaður, þá kallar hafið og minnir
á að við komum öll þaðan upphaflega (eins og Svava persónugerir í Fisk-
inum í Gunnlaðar sögu). Rætur okkar margra liggja beint til Kaup-
mannahafnar. En ekki aðeins persónulega því að íslensk menning er