Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 38
Á r m a n n J a k o b s s o n
38 TMM 2007 · 1
máli. Ég tala nú ekki um þegar kemur að þrifum og skúringum. Sumir
geta líklega ryksugað og þvegið gólf árum saman án þess að horfa á flís-
arnar en Svava hugsaði einmitt um flísar og þó líklega á allt annan hátt
en flestir framkvæmdaglaðir íslenskir húseigendur. Og þegar maður
hefur gubbað og liggur með hnén á flísagólfinu þá beinist athyglin
auðvitað að flísum. Þó ekki væri nema vegna þess að sá sem er nýbúinn
að gubba fer ekki að hugsa um Aristóteles og Plató. Í þessu atriði eru
flísarnar kannski sams konar tákn og Ballyskórnir, enn eitt smávaxið
tákn um hvernig 20. aldar maðurinn múraði hamingju sína inn í stein-
veggi nýbyggðra húsa og hvers kyns dauða hluti aðra. Fram að þessu
hefur líf frúarinnar snúist um efnisleg gæði. Hún hlýtur því að sjá sjálfa
sig í flísalögðu klósettgólfinu.
Orðið gubb er mikilvægt smáatriði. Það eru til mörg kurteis orð. Æla
er fjarlægara og næstum bókmenntalegt, að vísu dálítið sjóaralegt. Svo
má kasta upp eða selja upp. Uppsölur er fallegt orð, hljómar næstum
eins og einn fegursti bær í Svíþjóð þar sem Svava bjó eitt sinn. En gubb
skal það vera. Er það vegna þess að þetta er orðið sem börnin nota? Er
það samhljóðaklasinn? Þetta er hrátt orð um frumstæða athöfn og ein-
mitt þess vegna notar Svava orðið gubb og ekkert annað. Það má hvorki
hlífa okkur né konunni sem sjónarhornið er hjá og hún hlýtur að nota
orðið gubb því að á þessari stundu er henni fjarri að hlífa sjálfri sér.
3.
Hugsunin um land sektar á sinn þátt í að skapa hvörf í sögunni. Kannski
eru þessi hvörf líka kennsl eins og í grísku leikritunum forðum (úr því
ég nefndi Aristóteles). Það verða kennsl þegar frúin horfir á pylsubitana
örsmáu eins og fjöll í landslagi. Þá skilur hún loksins hvar hún er stödd.
Fjöll eru alltaf hjálpleg við að rata.
Nákvæmlega í hverju sekt konunnar felst er ekki auðvelt að skýra,
ekki á þessum tímapunkti sögunnar. Enda fer sagan síðan í leit að þess-
ari sekt sem er tákngerð í Gunnlöðu, dóttur jötunsins sem Snorri kveð-
ur hafa legið hjá Óðni og útvegað honum skáldskaparmjöðinn sem hún
átti að varðveita. Að einhverju leyti er sektin sameign kvenna og hún er
margföld:
Gunnlöð er dóttir jötuns, á það raunar sameiginlegt með mörgum
ásynjum, ef marka má Snorra. Sekt hennar er því í fyrsta lagi óhreinn
uppruni sem gjarnan er heimfærður á konur. Það er ekki tilviljun að
ásynjur eru komnar af jötnum miklu fremur en karlkyns æsir. Hrein-
leiki upprunans er ekki þeirra. Adam var skapaður en Eva smíðuð úr