Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 40
Á r m a n n J a k o b s s o n
40 TMM 2007 · 1
hrópað um fund gegnum gjallarhorn og um leið fer Fenrisúlfur
nútímans að gelta bak við mannhæðarháar járngrindur „og mér þótti
sem öll skrímsli næturinnar myndu losna úr fjötrum og draga mig með
sér“ (bls. 392) – og hún finnur fyrir óbragði. Er orðin ljósfælin, þolir
ekki tilhugsunina um birtuna í matsal hótelsins. Hinn kunnuglegi
heimur er orðinn framandi. Hún er ekki lengur fær um að vera sú sem
hún var og þess vegna rásar hún burt, kannski í leit að sjálfri sér.
Hún dregst að matstað, tekur eftir grútskítugu neonljósaskilti og
gardínum sem eru „hvítgráar af óhreinindum og máttlausar af sliti“
(bls. 392) og ályktar að þær þoli vart einn þvott í viðbót og því sé sá
þvottur dreginn á langinn. Síðan sér hún rauðköflótta borðdúka inni og
fer að hugsa um hversu skynsamlegur sá litur sé fyrir þann sem vill
spara þvott. Svona hugsar fólk og sögupersónur Svövu en skáldsagna-
persónur gerðu það almennt ekki áður en Svava hóf upp rödd sína og
eiga raunar enn í mestu vandræðum með að gera það svo vel sé. Nostur
við smáatriði af þessu tagi er enda mikilvægur þáttur í skáldskaparfræð-
um hennar. Hugmyndin er þá sú að það þjóni skilningi að horfa mjög
vel á það sem er í sjónmáli, fremur en reyna að sjá allt og ná engu í
brennidepilinn.
Skyndilega opnast dyrnar á matstaðnum og út þjóta þrír unglingar
með hlátri og masi og fyrirferð og frúin hrökklast undan „og ég gat ekki
lengur hunsað það sem hjartslátturinn sagði mér: ég er hrædd við ungl-
inga. Mér finnst þeir ógna mér.“ Og hún hugsar áfram:
Auðvitað veit ég að unglingar eiga það til að ráðast á fólk. Það er ekki nema
skynsamlegt að vera var um sig. En skynsemin segir mér líka að það ráðast ekki
allir unglingar á fólk. Ég er ekki hrædd við árás. Það fór ekkert varnarkerfi í
gang hjá mér. Aðeins ótti … og flótti. Ég er hrædd við unglinga. Maður veit
aldrei hvað bærist með þeim. Maður getur átt von á öllum andskotanum (bls.
392–93).
Kannski er hér upphaf þess skilnings sem konan fær síðan með því að
gubba þegar hún horfist þarna í augu við ótta sinn við unglinga. En
þessi tiltekni ótti minnir vitaskuld á að dóttir hennar Dís er unglingur.
Erfiðara er að segja hvað hún óttast við æskuna. Hormónabreytingarn-
ar? Ójafnvægið? Millibilsástandið sem unglingsárin eru? Hún segir sjálf
að það sé þetta óútreiknanlega sem hún hræðist.
Óttast hún þá unglingana eins og hún óttast framtíðina?7 Fortíðin og
framtíðin eiga það sameiginlegt að gefa nútímanum dýpt en fortíð og
framtíð eru ekki beinlínis til nema sem skynjun, í raun er ekkert til
nema núið sem frúin hefur hingað til lifað í vegna þess að líf hennar