Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 43
S a g ð i r ð u g u b b ?
TMM 2007 · 1 43
6.
Goðsagnir ættu líka helst að vera í skýrum tengslum við frumþarfirnar.
Þær eru í eðli sínu svolítið frumstæðar. Þess vegna er ekki óvænt að það
sé gubbað í goðsögu. Það er ekki heldur tilviljun að höfundur sem jafn-
framt er goðsagnafræðingur hafi helgað skáldskap sinn því nálæga:
sérríflösku, myndasafni, nöglum og pylsubitum í gubbhafi. Í skarpri og
ágengri nálægð getur maðurinn einn helst náð einhvers konar skilningi
á lífi sínu sem annars er of stórt og flókið til að hann geti skilið það.
Það er óumflýjanlegt að það sé gubbað í Gunnlaðar sögu því að hún
er svar konunnar við goðsögninni um skáldskaparmjöðinn sem Óðinn
ældi upp úr sér. Konan og Óðinn fara bæði með sigur af hólmi þegar þau
gubba, þó að hann viti það en hún ekki. En í þessu tilviki virðist gubb-
inu fylgja skarpari sýn, ef ekki skáldskapargáfa. Eða þurfti konan að æla
úr sér því sem torveldar skilning? Ef til vill fölskum goðsögnum um
sjálfa sig sem hún hafði skapað úr hlutum eins og Ballyskóm.
Hvort heldur er gengur fína frúin í Ballyskónum goðsögunni á hönd
í lokin – og losar sig við skóna. Ekki endilega þannig að hún trúi henni
og verði „geðveik“ eins og dóttirin. Kannski trúir hún hverju orði og
kannski ekki. En hún stelur samt kerinu sem Óðinn hafði stolið og með
því að taka þátt í goðsögunni bætir hún fyrir svikin við dótturina og
sjálfa sig. Stuldur kersins er táknrænn snúningur goðsagnarinnar sem
Snorri Sturluson afbakaði. Í sögu hans skipti kerið engu máli – næstum
jafn litlu og Gunnlöð sjálf. Það var aðeins ílát undir mjöðinn sem dverg-
arnir höfðu búið til úr spurningakeppnisguðinum Kvasi. Í sögu Svövu
skiptir kerið öllu máli.
En til hvers? Til hvers var gubbað og til hvers var stolið? Í blálok sög-
unnar kemur fram að konan stal ekki kerinu til þess að stela skáld-
skapnum frá karlmanninum. Heldur til þess að byrja upp á nýtt og reisa
nýja sköpunarsögu á rústum hinnar gömlu.
Þetta kemur skýrast fram í lokaorðum sögunnar, en þau eru: „Já, tvö
tré á ströndu“ (bls. 574). Margir lesendur munu þar hafa þekkt skírskot-
un til goðsagnarinnar um hin örlöglausu tré Ask og Emblu sem Óðinn
og bræður hans fundu á ströndinni og gáfu líf til þess að þau gætu orðið
forfeður mannkynsins. Því að Svava hafnar þrátt fyrir allt ekki Snorra
Sturlusyni, aðeins sögn hans um skáldamjöðinn. Andsvar hennar við
þessari þrúgandi goðsögu reynist líka að finna hjá Snorra.