Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 61
TMM 2007 · 1 61
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
Silja Aðalsteinsdóttir
Á líðandi stund
Viku af desember á nýliðnu ári barst ritstjóra TMM bréf frá ókunnugum
manni sem sagði frá því að honum hefði áskotnast handrit að Flugum Jóns
Thoroddsen, þeirri dýrlegu bók sem fyrst kom út árið 1922, áritað frá honum
til móður hans, Theodoru Thoroddsen. Handritið hafði bréfritari fengið að
gjöf frá föður sínum sem hafði erft það eftir móður sína sem var systir skálds-
ins. Þetta var ekki eina fréttin í bréfinu: „Aðalástæða þess að ég rita þér þenn-
an tölvupóst er þó sú að inni í bókinni var bréförk þar sem á var ritað prósaljóð
eftir Jón. Ljóðið fjallar um það þegar Matthías Jochumsson og Jónas Hall-
grímsson hittast á himnum. Svo virðist sem Theodora Thoroddsen móðir
skáldsins hafi lesið yfir ljóðið og ritað leiðréttingar inn á það.“ Ljóðið, sagði
bréfritari ennfremur, hafði komið til umræðu við Sigurð Svavarsson hjá Eddu
útgáfu sem benti bréfritara á Tímarit Máls og menningar.
Það er ekki auðvelt að lýsa gleðinni sem greip mig þegar bréfritari kom með
ljóðið og leyfði mér að lesa. Fögnuðurinn stafaði fyrst og fremst af því að sjá
þarna nýja „flugu“, unga og fyndna og djarfa. Reyndar var ansi erfitt að ganga
ekki beinlínis af göflunum. En þegar ég reyndi að útskýra fyrir unga mann-
inum hvers konar gersemi hann hefði fært mér sagði hann stillilega: „Ég er nú
bara lögfræðingur og vissi ekki almennilega hvað ég átti að gera við þetta!“
Þegar „flugan“ barst var löngu ákveðið að Jónas Hallgrímsson yrði í öndvegi
í fyrsta hefti 2007 – þó að hann verði ekki 200 ára fyrr en í nóvember. Viðtalið
við Dick Ringler var löngu tekið, og eiginlega var eins og ég hefði pantað þenn-
an ljóðafund sérstaklega til að ríma við þemað! Þá var Gerður Kristný líka
löngu búin að senda mér sitt ljóð um Jónas. Svona er hann sprelllifandi ennþá
og tekur fullan þátt í að ritstýra tímaritum.
Af kápumyndinni er það að segja að Tryggvi Ólafsson leyfði mér af ljúf-
mennsku að nota minnisstætt veggspjald sem hann gerði í tilefni af heildar-
útgáfu á verkum Jónasar á sínum tíma. Rétt eftir þessi ánægjulegu samskipti
datt Tryggvi illa og er enn á sjúkrahúsi þegar þetta er ritað. Við sendum honum
okkar bestu óskir um skjótan bata.