Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 96
B ó k m e n n t i r
96 TMM 2007 · 1
Þó má ekki skilja þessi skrif sem svo að þau gefi í skyn að við göngumst öll
meira og minna upp í innantómu ímyndarbrölti hinnar íslensku furðuklisju og
séum algerlega ófær um að koma auga á veruleikann eins og hann er. Ekki er
ástandið heldur svo slæmt að umheimur allur hafi sömu viðhorf gagnvart landi
og þjóð og básúnuð eru til dæmis í kvæði Þjóðverjans Gories Peerse frá 1561;
land og þjóð tómar furður og illa ígrunduð rómantík. Og ekki erum við heldur,
upp til hópa, þunglamaleg gamalmenni eða unglingar á rúntinum sem eiga
enga ósk heitari en að vera einhvers staðar annars staðar.
Það Ísland sem birtist í þessari þýddu en samt ekki þýddu bók er ekki land
almennra undra og fallegs fólks og ekki heldur líkt og það er séð í gegnum linsu
Rob Hornstra. Blessunarlega er eitthvað þarna á milli; land öryrkjanna sem
safna flöskum, hnakkanna með Scooter í botni akandi niður Laugaveginn á
BMW, morgunverðar á McDonald’s, fjallagrasaetandi og náttúruelskandi
virkjunarandstæðingja, steinsteypu- og orkuelskandi virkjunnarsinna … og
kannski bara déskollans álfanna líka …
Vissulega kann grein þessi að virka sem upptalning á því sem bókin er ekki
fremur en það sem hún er. Í þessu tilfelli á það þó við, þar sem óvanalegt er að
fá þennan vinkil á land og þjóð; vinkil sem fær mann til þess að sjá hlutina í
öðru ljósi.
Tilvísanir
1 Án þess að hafa gert nákvæma rannsókn á því þá virðast sígarettur, melankólía
og áfengi spila stóra rullu í skáldverkum ungra þýskra rithöfunda. Til að mynda
koma þessir þrír þættir iðulega fram í smásögum skáldsystur og landa Kristofs,
Judith Hermann.
2 Afraksturinn birtist í sýningu Þjóðminjasafnsins síðasta sumar.
3 Áðurnefndri Judith Hermann verður til að mynda tíðrætt um Íslandshestinn (Is-
landpferd) í sögu sinni „Kaltblau“ í bókinni Nichts als Gespenster. Sú saga gerist á
Íslandi.