Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 105
Kv i k m y n d i r
TMM 2007 · 1 105
fjölskyldudrama af skandinavískri gerð, fjallar um fólk úr efri-millistétt sem
hefur komið sér vel fyrir í úthverfi og innréttað híbýli sín eftir nýjustu tísku.
Allt er kalt og fágað – gráblái liturinn er allsráðandi í Blóðböndum. Það er
einna helst í híbýlum Önnu í miðbænum að líf færist í litina en hún er á
tímabili lausn Péturs frá fjölskylduvandræðum hans. Helsti ljóður myndarinn-
ar er kannski hvernig persóna Önnu er afgreidd þegar Pétur snýr aftur í faðm
fjölskyldunnar.
Ef Börn Ragnars Bragasonar er einnig stílhreint fjölskyldudrama er það
annarrar gerðar. Fyrir það fyrsta skoðar Börn lægri stéttir samfélagsins – fólk
sem berst í bökkum við að hafa í sig og á (í Foreldrum sem frumsýnd var í upp-
hafi ársins 2007 skoðar Ragnar aftur á móti vel sett úthverfafólk). Þá fjallar
hún um töluvert fleiri persónur og býr yfir samfélagsvídd, sem er orðin alltof
sjaldgæf í íslenskum kvikmyndum, og er ekki að finna í Blóðböndum sem
fjallar fyrst og fremst um upplausn stakrar fjölskyldu. Ekki verður annað sagt
en að svarthvíti liturinn hæfi vel þeirri mynd sem dregin er upp af íslensku
samfélagi þar sem stórblokkirnar birtast sem verstu austantjaldsvirki, og leik-
ur er afar vandaður. Samvinna Ragnars og leikhópsins Vesturports hefur lífgað
upp á íslenska kvikmyndagerð, og er fram í sækir gæti ég trúað að tvíleikurinn
Börn og Foreldrar muni þykja um margt tímamótaverk.
Allir leikstjórar ársins eru karlar
Samfara aukinni alþjóðlegri samvinnu í kvikmyndagerð hefur orðið æ erfiðara
að flokka kvikmyndir eftir þjóðerni. Og eins og ég hef bent á í öðru samhengi
hefur íslensk kvikmyndagerð verið að tapa þjóðlegum sérkennum sínum á
undanförnum árum.4 Ef marka má myndir þessa árs hefur nú að einhverju
leyti verið snúið af þeirri braut. En hérlendis eru einnig teknar upp kvikmynd-
ir sem falla lítt eða alls ekki undir íslenska kvikmyndagerð.
Líkt og mörg undanfarin ár sótti Hollywood-risi Ísland heim og nú voru
skotnar senur fyrir mynd Clints Eastwood Flags of Our Fathers. Slík stórverk-
efni eru afar mikilvæg íslenskum kvikmyndaiðnaði en geta ekki talist til
íslenskrar kvikmyndagerðar í þeim samfélagslega og menningarlega skilningi
sem við leggjum allajafna í hugtakið. Erfiðara er að segja til um Beowulf &
Grendel Sturlu Gunnarssonar (hún er reyndar frá árinu 2005 þótt hún hafi
ekki verið frumsýnd hér fyrr en 2006), sem tekin var á landinu af jafnt íslensku
sem erlendu kvikmyndagerðarfólki. Þessi aðlögun á Bjólfskviðu sem stakk
mjög í stúf við aðrar myndir ársins gerði kannski lítið annað en að minna
okkur á hversu langt er um liðið síðan íslenskir kvikmyndagerðarmenn lögðu
til atlögu við Íslendingasögurnar. Öllu áhugaverðari var heimildarmynd Jóns
Gústafssonar Wrath of Gods um gerð Beowulf & Grendel sem birti nokkuð
aðra ímynd af kvikmyndun íslenskrar náttúru en auglýsingabæklingar Film in
Iceland. Ef marka má Wrath of Gods er íslensk kvikmyndagerð ekki eins og
veðrið – hún er beinlínis veðrið sjálft.
Ekki er hægt að ljúka þessari yfirferð yfir myndir ársins án þess að geta