Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Page 109
TMM 2007 · 1 109
M y n d l i s t
Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Hvað er að sjá og skilja?
„Áhorfendur hafa fullt leyfi til að túlka listaverkið og sjá í því það sem þeir
vilja. Það eru þeir sem gefa verkinu merkingu.“ Þetta er ekki tilvitnun í neinn
ákveðinn listamann heldur inntakið í ótal svörum ónafngreindra myndlist-
armanna sem á undanförnum árum hafa oft látið hafa eitthvað í þessum dúr
eftir sér í blaðaviðtölum þegar þeir eru spurðir út í verk sem þeir eru að fara að
sýna. Þessi svör hafa alltaf vakið mér dálitla furðu. Hvað eiga myndlistarmenn
við? Að þeir hafi ekkert að segja? Að verkin séu ekki tjáning á neinu? Að þeir
séu ekki að reyna að ná fram ákveðnum hughrifum eða kalla fram tiltekna
skynjun? Þeir ætli sér hvorki að vekja hroll, sælu, ánægju, gleði né sorg? Getur
verið að þeir hafi ekkert að segja, hvorki um listina né lífið? Hvað veldur því að
þessir myndlistarmenn hafa kosið að afsala sér merkingu eigin verka? Hvers
vegna ganga þeir svo langt að segja að ekki aðeins megi áhorfendur sjá það sem
þeir vilja út úr listaverkum þeirra, heldur sé það sem þeir sjá merkingin?
Með því að varpa fram þessum spurningum er ekki verið að halda því fram að
myndlistarmenn eigi að hafa eða geti haft fullkomna stjórn á því hvað áhorf-
endur sjá í verkum þeirra. Þannig er það ekki og hefur eflaust aldrei verið. Áhorf-
endur koma að listaverkum með eigin reynslu sem hefur áhrif á það sem þeir sjá
og skynja ef þeir gefa sér þá tíma til að velta því fyrir sér. Geri þeir það tekst bæði
lærðum og leikum áhorfendum að sjá ýmislegt út úr listaverkum sem listamönn-
unum datt sjálfum aldrei í hug að væri þar. En ekki er þar með sagt að listamað-
urinn hafi ekki viljað tjá neitt né setja fram ákveðna hugmynd eða sýn.
Innlimun áhorfandans
Það eru vafalítið fleyg orð Marcels Duchamp um hlut áhorfandans í sköpun
listaverksins sem íslensku myndlistarmennirnir hafa í huga þegar þeir segja að
áhorfandanum sé velkomið að túlka verk þeirra að eigin geðþótta. Duchamp
var ekki aðeins uppátækjasamur listamaður heldur naskur náungi sem gerði
sér grein fyrir áhrifum áhorfandans á örlög listamanna og verka þeirra. Með
því að orða þetta áhrifavald innlimaði Duchamp áhorfandann í listaverkið,
líklega fyrstur manna. En átti Duchamp þar með við að listaverk væru eins og
tómar tunnur sem öllum væri frjálst að fylla með sjálfum sér? Það er fátt sem
bendir til þess. Duchamp gerði sér vissulega grein fyrir því að listamaðurinn