Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Qupperneq 7
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
20
niðurstöðum dómstóla er áhersla lögð á líkamlegt ofbeldi og ábyrgð þol-
enda, sem virðist vera minni þegar gerendur hafa erlendan bakgrunn.31
Eftirlitsnefnd um samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mis-
mununar gegn konum hefur lýst áhyggjum sínum af framgangi nauðgunar-
mála innan íslenska réttarvörslukerfisins. Kæruferlið er mjög erfitt og óþægi-
legt fyrir brotaþola, málsmeðferðartími er langur og brotaþolar fá litlar sem
engar upplýsingar meðan á ferlinu stendur.32 Það að kerfið sé ekki nægilega
vel sniðið að þörfum þolenda endurspeglast í rannsókn á reynslu kærenda
nauðgana af réttarvörslukerfinu, en þátttakendur upplifðu það sem annað
áfall að leita réttar síns.33 Fram kom að konurnar upplifðu réttarvörslukerfið
sem gerendavænt og voru ósáttar við kæruferlið að nær öllu leyti.34 Í nauðg-
unarmenningu verður kynbundið ofbeldi að normi, athyglinni er beint að
brotaþolum og frá ábyrgð gerenda og þeim menningarlegu og kerfisbundnu
þáttum sem ýta undir og viðhalda ofbeldi gegn konum.
Aðferðir og gögn
Eigindlegar rannsóknaraðferðir henta vel til að öðlast dýpri skilning á fé-
lagslegu fyrirbæri líkt og nauðgunarmenningu. Til að varpa ljósi á nauðg-
unarmenningu hér á landi voru tekin rýnihópaviðtöl, en slík viðtöl eru til-
valin til þess að fá innsýn í margvísleg viðhorf, reynslu og gildismat fólks.35
Til að öðlast skilning á fyrirbærinu frá ólíkum sjónarmiðum var blönduðum
aðferðum beitt og einnig stuðst við fimm hálfstöðluð einstaklingsviðtöl.
Meginmarkmið þeirra viðtala var að varpa ljósi á reynslu brotaþola af að
kæra nauðgun til lögreglu, en hálfstöðluð einstaklingsviðtöl henta vel til að
öðlast skilning á upplifun viðmælenda, heyra þeirra sjónarmið og leyfa við-
31 Þórhildur Sæmundsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir, „„Hún reyndi ekki að kalla á
hjálp…“: Greining á niðurstöðum Hæstaréttar í nauðgunarmálum“, bls. 93-94.
32 Eftirlitsnefnd um samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn
konum, Concluding observations on the combined seventh and eighth periodic reports of
Iceland, 2016, bls. 5.
33 Karen Birna Þorvaldsdóttir, „„Annað áfall ofan á hitt“: Reynsla kærenda nauðgana
af réttarvörslukerfinu á Norðurlandi þar sem málið var fellt niður“, óútgefin
meistararitgerð, Akureyri: Háskólinn á Akureyri, 2019, bls. 57, sótt 17. maí 2019 af
https://skemman.is/handle/1946/32390.
34 Sama heimild, bls. 62.
35 Sóley S. Bender, „Rýnihópar“, Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í
heilbrigðisvísindum, ritstj. Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson, Akureyri:
Háskólinn á Akureyri, 2003, bls. 85-99, hér bls. 85.