Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 9
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
22
Helstu siðferðislegu álitamálin snúa að þátttakendum rannsóknarinnar.
Öllum viðmælendum var heitið fullum trúnaði og nafnleynd, og gefin gervi-
nöfn strax við afritun viðtala. Þátttakendum var gerð grein fyrir að þeir gætu
hætt þátttöku í rannsókninni hvenær sem væri án nokkurra afleiðinga. Að
auki voru þeir upplýstir um að ef einhverjar spurningar myndu vakna að
loknu viðtali þá gætu þeir leitað til rannsakanda, sem er fyrsti höfundur
greinar, hvenær sem er. Í viðtölum við brotaþola var markmiðið að fá innsýn
inn í ferlið sem hefst í kjölfarið af erfiðri upplifun, en viðmælendur voru
ekki spurðar um ofbeldið sem þær urðu fyrir. Þær voru upplýstar um það
áður en viðtölin fóru fram. Í rýnihópaviðtölunum var ekki lögð áhersla á
upplifun þátttakenda af nauðgunum, umræðan sneri að umfjöllunum um
nauðganir og upplifun þátttakenda af þeirri umfjöllun. Rannsakandi var
vakandi fyrir því að það gætu verið brotaþolar í hópnum. Ef grunur vaknaði
um að þátttakendur byggju yfir erfiðri reynslu og að viðtalið hefði valdið
þeim vanlíðan þá var rætt einslega við viðkomandi í lok viðtals og honum
kynnt þau stuðningsúrræði sem eru í boði. Í öllu rannsóknarferlinu hugaði
rannsakandi að því að tryggja að rannsóknin hefði ekki neikvæð áhrif á þátt-
takendur.
Við gagnagreiningu var stuðst við nálgun grundaðrar kenningar.39
Gögnin voru marglesin og leitað að sameiginlegum þemum en einnig að
þáttum sem sýndu ólíkar víddir innan hvers þema. Þemun eru: Kynferðislegt
ofbeldi sem norm, ábyrgð brotaþola, „alvöru nauðgun“, og ofbeldismaður afsak-
aður eða gerður að skrímsli með vísan í sjúkleika. Gagnaöflun í kjölfar #metoo
hreyfingarinnar hefði hugsanlega leitt til annarrar niðurstöðu, en þessi gögn
gefa innsýn í rótgrónar samfélagshugmyndir sem virðast hafa viðgengist um
langt bil. Í næsta hluta eru niðurstöður greiningarinnar kynntar og helstu
birtingarmyndir nauðgunarmenningar skoðaðar.
Niðurstöður
Kynferðislegt ofbeldi sem norm
Ein vísbending þess að ofbeldi gegn konum sé normalíserað í íslensku sam-
félagi er að fjórðungur kvenna hér á landi hefur orðið fyrir kynferðislegu
ofbeldi einhvern tímann frá 16 ára aldri og rúmlega 13% kvenna hefur orðið
fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar eftir að þær urðu 16 ára.40 Kyn-
39 Barney Glaser og Anselm L. Strauss, The discovery of grounded theory: Strategies for
qualitative research, New York: Aldine, 1967.
40 Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds, Rannsóknir á ofbeldi gegn konum, bls. 28.