Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Síða 13
FINNBORG SALOME OG GYÐA MARGRÉT
26
Druslustimplun ýtir undir þá hugmynd að konur og stúlkur sem daðra
og ögra eigi skilið minni virðingu en konur sem gera það ekki.51 Það leiðir af
sér þá hugmynd að það sé eitthvað sem brotaþolar nauðgana geri sem verði
til þess að þeim sé nauðgað. Slíkt kom fram í umræðum, og birtist m.a. í
orðum Eddu:
Ég vil alls ekki meina að þetta sé eitthvað vandamál kvenfólks. Alls
ekki. En stelpur hegða sér oft þannig, held ég, að það sé erfitt fyrir
strákana að greina á milli hvað sé viðreynsla og hvað ekki. Þú veist,
við klæðum okkur ögrandi, við erum daðrandi en við meinum ekk-
ert með því. Hvernig, þú veist, hvernig er hægt að sjá muninn?
[…] Spurningin er, ertu búin að ögra manneskjunni, aðilanum, það
mikið að hann sé bara kominn lengra, lengra en öll góð dómgreind
leyfir?
Þessi orð varpa ljósi á þær hugmyndir um að konur ögri með hegðun sinni
og klæðaburði sem síðan leiðir til nauðgana. Þetta rímar við hvernig sam-
félagið setur konum reglur um hvernig þær eiga að hegða sér, klæða sig og
koma fram. Þetta heyra konur frá unga aldri. Konur fá m.a. leiðbeiningar
um að vera ekki einar úti að nóttu til eða með ókunnugum, að drekka ekki
of mikið52 og að klæðast nauðgunarvarnar-nærklæðnaði.53 Konur fá þau
skilaboð að ef þær fylgi þessum reglum þá muni þeim ekki verða nauðgað.
Reglur sem þessar leiða til þess að ef konum er nauðgað þá eru þær um leið
ásakaðar um að hafa ekki gert nægar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir
nauðgunina. Þótt Þórir taki það skýrt fram að brotaþolar beri ekki ábyrgð á
nauðgun þá birtist sú hugmynd í orðum hans:
Þeir [brotaþolar] geta sett sig í meiri hættu. Ég meina, þeir geta
sett sig í aðstæður þar sem þeir eru í meiri hættu. Samt sem áður þá
er það ekki þeim að kenna.
Að brotaþolar geti sett sig í hættu og þurfi að huga að aðstæðum endur-
51 Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir, Druslustimplun: „Þetta er ekki manneskja fyrir
þér, þetta er bara netið“, bls. 64.
52 Lýðheilsustöð, Ef þú drekkur ekki, 2009, sótt 8. apríl 2019 af https://matthildurh.
blog.is/blog/matthildurh/entry/854343/.
53 Amanda Hess, „The comfortable, elegant chastity belt for the modern rape victim“,
Slate.com, 4. nóvember 2013, sótt 8. apríl 2019 af http://www.slate.com/blogs/xx_
factor/2013/11/04/ar_wear_these_anti_rape_shorts_update_the_chastity_belt_for_
the_rape_culture.html.