Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 16
ÁBYRGAR KONuR OG SjÚKIR KARLAR
29
og þetta er það sem við eyðum þúsundum klukkustunda á ári í að
reyna að aftengja hjá þeim. Akkúrat þetta sem samfélagið er búið
að meitla inn í hugarfarið þeirra… að þetta sé þeim að kenna.
Óskrifaðar reglur og leiðbeiningar sem þessar færa ábyrgðina á brotunum
frá gerendum og yfir á brotaþola. Með þeim hætti er litið á nauðganir sem
fyrirbæri sem konur geti komist hjá ef þær fylgi reglunum.61 Ef samfélagið
vill setja konum reglur þá væri raunhæfara að setja reglur sem byggja á töl-
fræði nauðgana, en gerendur eru í flestum tilvikum karlar sem brotaþolar
þekkja og umgangast.62 Þátttakendur sögðust allir vera meðvitaðir um að al-
gengast væri að nauðganir ættu sér stað innan veggja heimila og að ofbeldis-
maðurinn væri oft einhver nákominn brotaþola. Þrátt fyrir það kom fram
lítill skilningur á nauðgunum í nánum samböndum, sem hugsanlega má
rekja til þess að til skamms tíma var fyrirbærið ekki viðurkennt.63 Auk þess
er hægt að rekja skilningsleysið til ríkjandi hugmynda um „alvöru nauðgun“.
„Alvöru nauðgun“
Liz Kelly skilgreinir staðalmyndina um „alvöru nauðgun“ þar sem gerand-
inn er ókunnugur og ræðst á brotaþola í skjóli nætur og beitir jafnvel vopn-
um. Í fáum tilfellum eru nauðganir í samræmi við þessa hugmynd og mikill
meirihluti nauðgana er í mótsögn við þessa hugmynd.64 Rannsóknir sýna
að gerendur eru kunnugir brotaþolum (eins og fram hefur komið), brotin
eiga sér stað á öllum tímum dags og nætur, oftast innandyra og fela oftast í
sér hótun eða annars konar valdbeitingu án þess að vopnum sé beitt.65 Orð-
ræðan um nauðganir gerir það að verkum að brotaþolar eiga oft erfitt með
að skilgreina ofbeldið sem þau verða fyrir sem ofbeldi.66 Þetta rímar við
reynslu sérfræðingsins sem starfar með brotaþolum, en að hennar mati þá
uppfylla nauðganir sjaldnast þessa staðalmynd af „alvöru nauðgun“ og eru
gerendur nauðgana oftast „einhver sem maður þekkir“. Hún bendir á að
61 Sjá einnig Rannveig Sigurvinsdóttir, „„Þú veist þú vilt það“: Skýringar á
kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum“, bls. 165-166.
62 Stígamót, Ársskýrsla Stígamóta 2017, bls. 49. Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds,
Rannsóknir á ofbeldi gegn konum, bls. 63.
63 Rannveig Á. Guðjónsdóttir og Gyða M. Pétursdóttir, „Reynsla kvenna af
kynferðisofbeldi í nánu sambandi á unglingsárum“, bls. 5. Ingólfur V. Gíslason,
Nauðganir í nánum samböndum: Orsakir, afleiðingar og úrræði, Reykjavík: Félags- og
tryggingamálaráðuneytið, 2008, bls. 5-6.
64 Liz Kelly, Routes to (in)justice, bls. 5.
65 Sama heimild, bls. 3-4.
66 Lena Gunnarsson, „‘Excuse me, but are you raping me now?‘“, bls. 15.