Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 34
„SAMBýLISKOnUR […] Í SAMA KROPPI, Í SAMA HöFðI, Í SAMA BLóðI“
47
til ónefnds elskhuga sem ávarpaður er með gælunafninu kisi.21 Hann er sá
maður sem stöllurnar elska báðar, fyrrum elskhugi Gríms og sá sem Dísa
þráir. Þó svo að kisi sé ein af þremur aðalpersónum sögunnar er aldrei gefið
upp hver hann er eða fyrir hvað hann stendur. Hægt er að túlka hann á ýmsa
vegu en hér verður litið á hann sem fulltrúa bókmenntaelítunnar á Íslandi.
Þótt látið sé líta út fyrir að kisi sé aðalviðtakandi bréfsins og samþykki hans
á verkinu sé markmiðið þá eru það fyrst og fremst viðbrögð Gríms við texta
Dísu sem vega þyngst, sambandið þeirra á milli og ekki síst baráttan milli
þeirra allt frá því að Gríms varð til. Þessi óvenjulega frásagnaraðferð og
átökin á milli kvennanna tveggja, sem deila sama kroppi, gefa tilefni til að
skoða sérstaklega afdrifaríkar afleiðingar nauðgunarinnar, það er klofning
inn sem hún orsakaði, áhrifin á sjálfsálitið, samskipti við aðra og ekki síst
sjálfsofbeldið sem kynferðislegt ofbeldi getur leitt af sér.
Samræðusjálf
hún […] gerir enga athugasemd við að ég segi að stundum hafi
líf okkar verið barátta upp á líf og dauða og að ég hafi oftast haft
betur. En þó ég hafi oftast unnið stríðin okkar þá […] þýðir [það]
ekki að ég hafi ekki þráð að vera frjáls manneskja,
ein um minn huga,
ein um minn haus,
ein um minn líkama,
ein um mitt líf,
ein um þig, ástin mín. (17)
Svona kemst Gríms að orði í ávarpi til kisa þegar hún lýsir því hvernig það er
að deila bókstaflega líkama með annarri konu. Hér kristallast flækjurnar sem
fylgja því að ráða sér aldrei sjálfur og í sömu mund hve mikil valdabarátta
hlýtur að eiga sér stað í slíku sambýli. Í upphafi sögu er að finna bindandi
samkomulag kvennanna þar sem tekið er skýrt fram að sagan sé verk Dísu og
hún fái einungis tvo mánuði til að skrifa bók sína en Gríms fái þó að skrifa
fyrsta kaflann og sé „leyfilegt að grípa fram í þegar henni finn[i]st nauðsyn
legt, s[jái] að í óefni er komið eða ef[i]st ákaflega um sannleiksgildi þess sem
21 Einum þræði segir sagan frá því hvernig Vigdís varð rithöfundur og í þeim þræði
skiptir kisi miklu máli, rúmsins vegna verður hér lögð áhersla á persónurnar Dísu og
Gríms en ekki kisa og áhrif hans á raddirnar tvær.