Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 67
KjaRTan MÁR ÓMaRSSOn
80
fættur á náttfötunum“ og horft „inn í dimman kirkjugarðinn“ og tjáir svo
lesanda í beinu framhaldi: „nýverið tók mig að renna í grun að ég hafi ekki
vaknað – ég standi þar enn“.3 Mörkum milli svefns og vöku er eytt þar sem
mælandi efast um það hvort heimsmynd hans (okkar) sé á rökum reist eða
hvort hún byggi á þeirri (ó)reglu sem kemur á óvæntum fundi saumavélar og
regnhlífar á skurðborði.4 Lykillinn sem lesanda er réttur að verkinu er víst
sérkennilega skorinn en burt séð frá því er hann ekki ónothæfur, nema það
er óvíst hvort þær dyr sem hann lýkur upp séu þeirrar tegundar sem leiða
til skilnings eða glundroða, jafnvel og óvíst er hvort rödd mælanda berist úr
draumi eða veruleika, hvort hún sé ein eða fleiri. Hér er þó ekki ætlunin að
líta til verksins í heild sinni heldur stendur til að einblína á ljóðabálkinn sem
fleygar fyrsta og annan hluta: danse grotesque.
Bókmenntir hafa lengi – sama gildir raunar um kvikmyndir síðustu
hundrað ár – stundað þá iðju að refsa kvenpersónum fyrir að storka ,hefð-
bundnum‘ kynjahlutverkum með kúgunum, ofbeldi, jafnvel dauða. Þessi til-
hneiging birtist hvað skýrast í tálkvendum harðsoðinna einkaspæjarasagna
og rökkurmynda fimmta og sjötta áratugarins. Tálkvendin sköpuðu annars
vegar menningarlegt jafnvægisleysi eða grófu „undan forræði hefðbundinna
gilda með því að bjóða upp á andstæða lífssýn“ þegar þær voguðu sér „að
brjóta lögmál karlveldisins“.5 Fyrir vikið, og til þess að rétta hlut ,réttrar
þekkingar‘, ,réttrar trúar‘, við samfélagið og lögmálið var þeim refsað sem
víti til varnaðar öðrum konum.6 Slíkur lestur er jafnvel orðinn manni svo
eðlislægur að þegar „lík tröllvaxinnar konu“ finnst á níu mismunandi stöð-
um býður það túlkuninni heim að konan hafi gerst á einhvern hátt brotleg
gegn boðorðum samfélagsins – feðraveldisins.
Í ljósi þeirrar hefðar sem Sjón starfar innan er sömuleiðis gagnlegt að
hafa í huga að þessar ímyndir má rekja allt aftur gegnum rómantíkina að
hugmyndaheimi symbólismans og fagurfræði úrkynjunarinnar á síðari hluta
19. aldar. Þessi samræða er ekki síst mikilvæg þegar hugað er að tengslum
verksins við ljóð Baudelaire „Un Charogne“ úr Fleurs du Mal þar sem rotnun
og niðurbrot dýrs úti í vegkanti eru gerð að fagurfræðilegu viðfangi í róman-
tískum göngutúr. Þar er dýrshræið gert að hliðstæðu siðmenningarinnar sem
3 Sjón, gráspörvar og ígulker, Reykjavík: jPV, 2015, bls. 7. Framvegis verður vísað til
ljóðabálksins með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.
4 Sbr. Comte de Lautréamont [Isidore Ducasse], Les Chants de Maldoror, 1869.
5 Guðni Elísson, „Flögð og förðuð skinn: Tálkvendið í kvikmyndum noir-hefðarinnar“,
Flögð og fögur skinn, ritstj. jón Proppé, Reykjavík: art.is, 1998, bls. 16–35, hér bls. 19.
6 E. ann Kaplan, „Introduction“, Women in Film Noir, London: BFI, 1996, bls. 4.