Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Side 89
SIGRÚN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
102
garða urðu fyrir ásókn af ýmsum toga. Húsin veittu illum öflum ýmist skjól
eða virkjuðu þau. Arkitektúr skáldaðra draugahúsa helst í hendur við híbýla-
þróun með breyttum tíðaranda. Því fer ásókn í samtímaskáldskap um reim-
leikahús einnig fram í snyrtilegum húsum í úthverfum eða í blokkaríbúðum
í stórborgum og gömlu stórhýsin eru gjarnan orðin að spítölum og hótelum.
Rökkur er önnur mynd Erlings Óttars Thoroddsen í fullri lengd og jafn-
framt önnur hrollvekja hans, en áður kom kvikmyndin Child Eater (2016)
sem byggir á samnefndri stuttmynd frá árinu 2012. Kvikmyndafræðingurinn
Björn Þór Vilhjálmsson hefur bent á að með Rökkri hafi íslenskur leikstjóri
í fyrsta sinn tekið skref í átt að sérhæfingu í tiltekinni kvikmyndagrein, þar
sem Rökkur sé „„hreinræktuð“ hryllingsmynd í þeim skilningi að tákn-
búningur hennar, helstu stef, myndbygging og frásagnaráherslur eig[i] öll
rætur að rekja í hryllingshefðina“.4 Eins og fyrr var nefnt er kvikmyndin
sú undirgerð hrollvekjunnar sem fjallar um reimleikahús.5 Í fyrstu virðist
ásóknin vera bundin sumarbústaðnum Rökkri, sem stendur undir Snæfells-
jökli. Ýmislegt óhreint virðist vera á seyði þar; einhver — eða eitthvað — er
á vappi í kringum húsið á nóttunni og það er bankað á dyrnar en enginn
sjáanlegur þegar þeim er lokið upp. Tvö hús til viðbótar hýsa reimleika í
myndinni. Annað er yfirgefið fjölbýlishús á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Hitt
er eyðibýli á sömu slóðum. Ásóknin fer þó víðar fram, ekki síst innra með
lifendum. Mynd af blóði drifnu andliti Gunnars, annarrar aðalpersónunnar,
þar sem hann stendur undir Snæfellsjökli birtist á skjánum í upphafi Rökk-
4 Björn Þór Vilhjálmsson, „Margt býr í Rökkrinu“, Hugrás, 2017, sótt 7. mars 2019 af
http://hugras.is/2017/11/margt-byr-rokkrinu/. Þess má geta að Björn undanskilur
leikstjóra íslenskra gamanmynda.
5 Nefna má The Castle of Udolpho eftir Ann Radcliffe (1794), The House of Seven Gables
eftir Nathaniel Hawthorne (1851), The Fall of the House of Usher Edgars Allans
Poes (1839) og herragarð Henrys James í The Turn of the Screw (1898). Ásókn á
sér stað í vistarverum af öllum gerðum í skálduðum reimleikahúsum tuttugustu
aldarinnar, ættaróðölum í Viktoríustíl á borð við titilhúsið í The Haunting of Hill
House eftir Shirley Jackson (1959) og Allyardyce-húsið í Burnt Offerings eftir
Robert Marasco (1973), stórhýsum eins og Amityville-húsinu í skáldsögu Jay Anson
(1977), nútímalegum heimilum í úthverfum líkt og húsi Kennedy-fjölskyldunnar
í The House Next Door (1973) og háhýsum á borð við það sem heldur mæðgunum
í japönsku hrollvekjunni Dark Water (Honogurai Mizu no soko kara, 2002, Hideo
Nakata) í heljargreipum. Overlook-hótelið í The Shining eftir Stephen King (1977)
er sennilega eitt þekktasta reimleikahús síðustu aldar. Þetta er auðvitað fjarri því
að vera tæmandi listi yfir helstu reimleikahús bókmennta- og kvikmyndasögunnar,
enda væri of langt mál að gera þeim rækileg skil hér. Þess skal þó sérstaklega getið
að fyrsta íslenska hrollvekjan í fullri lengd fjallar einnig um reimleikahús. Það er
kvikmyndin Húsið (1983) eftir Egil Eðvarðsson.