Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 108
„HANN ER BARA Á VONDuM STAð“
121
til dæmis fram í sögum sem fjalla um vitundina sem er hlaðið upp á netið.65
Sú gerð skáldskapar er reyndar svo algeng að Andrés Önd er farinn að þræða
ranghala internetsins í eltingarleik við illgjarna hakkara.66 Samlíf manna og
tækni, þá sérstaklega stafrænnar tækni, er orðinn svo ríkur þáttur í tilvistinni
að sprottið hefur upp ný fræðigrein á síðustu árum sem kallast netheima-
sálfræði (e. cyberpsychology) sem fjallar um það hvernig tæknin hefur áhrif á
heilann. Líkt og getið var hér að framan eru reimleikahús oft hliðstæð huga
þeirra manna sem í þeim búa, Overlook endurspeglar til dæmis ýmislegt
sem býr í heila Jacks og líkamsstarfsemi hans birtist jafnvel í katli í kyndi-
klefa hótelsins. Þegar Jack verður reiður fer þrýstingurinn í hótelinu upp að
suðumarki. Netheimar eiga líkt og önnur reimleikahús hlutdeild í heilabúi
þess sem vafrar þar um.
Heilinn á netinu – eða netið í heilanum
Eitt af rannsóknarefnum netheimasálfræði er tæknin sem framlenging á
hugrænum ferlum mannsins þar sem meðal annars er stuðst við kenningar
úr taugavísindum um þróun og virkni mannsheilans. Ýmislegt bendir til
þess að eldri svæði heilans sem staðsett eru neðan heilabarkarins, eins og
mandlan og undirstúkan, hafi verið að teygja sig upp í nýrri svæði heila-
barkarins sem er staðsettur í efri lögum heilans. Segja má að þetta ævaforna
svæði sem stundum er vísað til sem skriðdýrsheilans67 teygi anga sína sífellt
lengra inn á brautir nýlegra hluta taugakerfisins.68 Þetta má rekja að miklu
leyti til félagslegra samskipta sem virðast eiga einna stærstan þátt í útþenslu
65 Ágætt dæmi er kvikmyndin Transcendence (Wally Pfister, 2013) þar sem aðalpersónan
hleður bókstaflega vitundinni upp á netið. Einnig má nefna kvikmyndina HER (2014)
eftir Spike Jonze sem dæmi um stýrikerfi sem er orðið svo mannlegt að einmana
einstaklingur verður ástfanginn af því. Hin óljósu tengsl á milli mannlegrar greindar
og gervigreindar hafa líka verið ofarlega á baugi vísindaskáldsagna um langt skeið.
66 Í sögu frá 2017 elta Stálöndin og Andrés tölvuþrjót inn í netheima þar sem skúrkur
falsar upplýsingar á netinu. Sjá, Augusto Macchetto og Paolo Mottura, „Stálöndin:
Hin dularfulla fölsun á sannleikanum“, Syrpan 292, 2017, Reykjavík: Edda, bls. 93–
121. ég vil þakka Matthíasi Degi Andersen fyrir þessa ábendingu.
67 Bergljót Soffía Kristjánsdóttir ræðir um skriðdýrsheilann í greininni „„yfrin tól /
fútúr gól“: Nokkur orð um Tourette og ljóðlist“ sem birtist í þessu hefti Ritsins, bls.
289-306, hér bls. 293.
68 Thomas D. Parson, Cyberpsychology and the Brain: The Interaction of Neuroscience and
Affective Computing, Cambridge: The university of Cambridge Press, 2017, bls.
34–35.