Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 153
HAUkUR INGvARSSON
166
brogsmaður“ og „húsbóndi“ sem íslensk yfirstétt þiggur í arf þó hún berjist
fyrir nýjum tímum, að minnsta kosti í orði kveðnu.
Þríleikur Guðmundar Daníelssonar er ekki gallalaus en hann er for-
vitnilegt rannsóknarefni og er til vitnis um þau gríðarlegu áhrif sem banda-
rískar bókmenntir höfðu á íslenska höfunda í kjölfar alþjóðlegs gegnum-
brots þeirra í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar. Um leið segir saga
Guðmundar af menningarreisunni til kaupmannahafnar og kynnum hans
af Faulkner í norskum þýðingum okkur að Norðurlönd þjónuðu hlutverki
nokkurs konar glugga að umheiminum fyrir Íslendinga lengi fram eftir 20.
öldinni. Og þegar hugsað er um íslenskar bókmenntir á 20. öld, og það
umhverfi sem höfundar og lesendur hrærðust í, nægir ekki að huga að frum-
sömdum textum og þýðingum á íslensku heldur verður líka að taka tillit til
bókmennta á öðrum tungumálum sem stóðu þeim til boða.
Ú T D R Á T T U R
Frá suðri til norðurs
William Faulkner og Guðmundur Daníelsson
Á fyrri hluta fimmta áratugarins skrifaði Guðmundur Daníelsson skáldsagna þrí-
leikinn Af jörðu ertu kominn: Eldur (1941), Sandur (1942) og Landið handan lands-
ins (1944). Guðmundur fór aldrei í grafgötur með það að kynni hans af skáldsögum
bandaríska rithöfundarins William Faulkners, í norskum þýðingum á fjórða ára-
tugnum, hefðu haft afgerandi áhrif á gerð þríleiksins en fram til þessa hafa þau aldrei
verið rannsökuð með skipulegum hætti.
Greinin skiptist í tvo hluta: Í þeim fyrri er kannað með hvað hætti Guðmundur
Daníelsson nýtir byggingarlag og hugmyndaheim skáldsögunnar Light in Aug-
ust eða Ljós í ágúst í Eldi, fyrsta bindi þríleiksins Af jörðu ertu kominn. Í þeim síðari er
horft á rannsóknir Faulkner-fræðinga undanfarna tvo áratugi á því hvers vegna verk
Faulkners hafa höfðað sérstaklega til rithöfunda á svæðum sem staðið hafa höllum
fæti í efnahagslegu og menningarlegu tilliti, ýmist innan heimalanda sinna eða gagn-
vart erlendu valdi. Spurt er hvort og þá hvernig Guðmundur Daníelsson nýti skáld-
sagnaformið til að fjalla um Ísland sem hjálendu eða nýlendu Dana. Fjallað er um
skáldsöguna í samhengi eftirlendufræða og lögð sérstök áhersla á að greina þá mynd
sem hún birtir af samspili valds og sjálfsmyndar með hliðsjón af þáttum eins og stétt,
kynþætti, kyni og fötlun.
Lykilorð: Guðmundur Daníelsson, William Faulkner, bókmenntasaga, heimsbók-
menntir, eftirlendufræði, sjálfsmynd