Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 181
DAGný KRISTJÁnSDóTTIR
178
Heimspekingurinn Arne Johan Vetlesen er á svipuðum slóðum þegar hann
segir að það að endursegja og tákngera sálarangist sína í orðum, myndum
eða leik losi um innri spennu; „því fátækari sem hinn innri táknheimur er,
þeim mun nærtækara er að bregðast við líkamlega, í þeim skilningi að öfl,
sem koma innan frá en rúmast þar ekki lengur, brjótast fram“.23
Þetta er áhugavert þegar litið er til þess hve lítið er til af fagurbókmennt-
um um sjálfsmeiðingar en mikið af sviðsettri, líkamlegri tjáningu. Armando
Favazza talar um „the theatre within which self-mutilation is performed“.24
Helgisiðir af ýmsu tagi eru afar mikilvægir fyrir fólk sem sker sig. Í bók
Marilee Strong A Bright Red Scream (1998) má finna margar lýsingar á helgi-
siðum og hefðum kringum sjálfsskaða:
Tamara byrjar hverja skurðarathöfn á því að raða áhöldunum upp:
rakvélarblöðum, alkóhóli, bómullarhnoðrum, umbúðum, hand-
klæði til að hindra að blóð drjúpi á teppið – hún handleikur hvern
hlut af meinafræðilegri nákvæmni. Hún sótthreinsar rakvélar-
blöðin og prófar bit þeirra létt á húðinni til að meta hve djúpt hún
hyggst skera …25
Allt þetta beinist að því að hafa stjórn og vald yfir ferlinu en þetta er líka leik-
sýning fyrir einn áhorfanda, undirbúningur og uppbygging spennu en um
leið er haldið aftur af henni. Ef eitthvað fer úr böndum hjá þeim sem sker
sig, ef skurðirnir verða of djúpir eða líður yfir sjálfsskaðarann getur orðið
slys sem menn forðast nema þeir séu í gríðarlegum tilfinningaofsa eða undir
áhrifum vímuefna. Þetta er hins vegar hættulegur leikur og þátttakendur í
honum verða sér mjög meðvitaðir um það. Á sérstökum vefsíðum fyrir fólk
sem sker sig brýna þátttakendur það hverjir fyrir öðrum að nota ný rakvélar-
blöð, brýnda hnífa, hvöss glerbrot og sótthreinsa allt. Í viðtalinu sem áður
var vitnað til segir fimmtán ára stúlkan: „Maður er ekki að reyna að drepa sig
heldur að sækjast eftir sársauka.“
Sviðsetningin og undirbúningurinn undir sjálfsskaðann snýst um mögnuð
tákn, sársaukann og blóðið sem koma skal. Allflestir sem skera sig reglulega
23 Arne Johan Vetlesen, Smerte, Snarøya: Dinamo Forlag, 2004, bls.111. Tilvitnun
eftir Karianne Jansen, Å skjære bort smerte – et kulturanalytisk blikk på fenomenet
kutting, Seksjon for helsefag. Institutt for helse og samfunn, det medisinske fakultet,
Universitetet i Oslo 2012, bls. 1-75, hér bls. 63, sótt 11. apríl 2019 af https://www.
duo.uio.no/handle/10852/28451.
24 Armando Favazza, Bodies under Siege, bls xii.
25 Marilee Strong, A Bright Red Scream. Self-Mutilation and the Language of Pain,
London: Virago, 1998, bls. 70.