Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 212
Á MIS VIð MÁLöRVun
209
Samskipti með slíkum táknum voru þá enn fjarlægari. Þetta leiðir hugann
að því risavaxna verkefni sem ungbörn standa frammi fyrir. Í umfjöllun um
tilgátuna um algildismálfræðina er oft nefnt að sú meginregla að setningar
byggist á liðgerð en ekki línulegri röð orða hljóti að vera meðfædd.36 En
tákn eru forsenda þess að rétt mynduð setning hafi merkingu. Saga Victors
minnir á að barn þarf ekki aðeins að læra hvað orðin merkja, heldur að þau
merkja. Til að geta lært merkingu tákna þarf fyrst að skilja hvað tákn er. Það
var Victori óendanlega erfitt. Er kannski einhver hugmynd um að „tákn er
tákn“ meðfædd kunnátta sem þarfnast örvunar á máltökuskeiði – sem Victor
fékk ekki?
Þrátt fyrir þetta átti Victor nokkuð auðvelt með að gera sig skiljanlegan
og fór sínu fram. Til þess virðist hann þó hafa notað einhvers konar athafna-
mál frekar en til dæmis bendingar. Svo fjarlæg voru táknin. Hann sótti disk
þegar hann vildi mat, teymdi fólk ef hann vildi fá það með sér og færði jafn-
vel þaulsætnum gestum hatt og staf, fylgdi þeim ákveðið til dyra og skellti á
eftir þeim.37
Itard beitti hugvitsamlegum aðferðum til að þjálfa táknskynjun og í raun
hugsun Victors. Honum tókst smám saman að fá Victor til að para saman
sams konar form, þríhyrning hjá þríhyrningi, hring hjá hring, ferning hjá
ferningi. Þegar hann hafði náð umtalsverðri færni í því byrjaði Itard að nota
bókstafi og lét Victor para þá saman á sama hátt þar til hann gjörþekkti form
þeirra. Þá var það einn daginn þegar Victor var að bíða eftir mjólkinni sinni
að Itard raðaði saman stöfum þannig að þeir mynduðu orðið lait (‘mjólk’).
Ráðskonan, sem tók þátt í þessu litla leikriti, horfði á stafina og sótti mjólk
handa Itard. Síðan rétti hann Victori stafina og viti menn, hann raðaði þeim
saman en þó í öfuga röð og þegar það hafði verið leiðrétt fékk hann mjólk.
Hann hafði áttað sig á því að stafarunan var tákn, hún vísaði út fyrir sjálfa sig.
Hann var greinilega fljótur að sjá hagræðið af þessu því að ekki leið á löngu
áður en hann stakk stöfunum á sig áður en hann gekk til þeirra skylduverka
sinna að sækja mjólk til nágrannans.38
Þannig var árangurinn samkvæmt skýrslu sem Itard skrifaði nokkrum
mánuðum eftir að leiðir þeirra lágu saman. Hann varpaði því fram í lokin að
ef til vill minnkaði hæfni barna til að læra mál þegar þau eltust.39
36 um lögmálið um „structure-dependency“, sjá t.d. Vivian J. Cook, Chomsky’s
Universal Grammar, bls. 2–6.
37 Jean Itard, Mémoire et Rapport sur Victor de l’Aveyron, bls. 34-35.
38 Sama rit, bls. 39-43.
39 Sama rit, bls. 45.