Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 235
SOFFÍa aUðUR BIRGISDóTTIR
232
aldrei í hug / að nokkur yfirgefi þau“.20 Einmanaleiki og þjáning barnsins er
átakanleg og í sjöunda ljóðinu kemur kyn þess í ljós og örvænting sem brýst
út á líkamlegan hátt með angist og uppköstum.
Ég verð að vera
Hluti af einhverju
Sagði hún
Og ældi
og ældi
og ældi21
Þessi upphafsljóð fyrstu ljóðabókar Elísabetar lýsa klofningi sjálfsins sem
reynist vera eitt þrálátasta þemað í verkum hennar. Klofningurinn verður
til við það að barnið lokast inni í sér og lifir eftir það á landamærum tveggja
heima. Uppköstin túlka upplausn sjálfsins, því að skynja sig hvorki sem heild
né sem hluta af heild. Elísabet hefur sjálf tengt þetta þema við þá staðreynd
að faðir hennar yfirgaf fjölskylduna og hafnaði henni í kjölfarið. Einnig
hefur hún sagt frá því að þegar faðir hennar dó hafi hún veikst á geði, tvítug
að aldri. Þetta kemur víða fram, bæði beint og óbeint, í skrifum hennar.
Hún segir föður sinn hafa læst sig inni og hent lyklinum (23) en jafnframt
að móðir sín hafi haldið sér frá föðurnum til „að reyna að vernda mig fyrir
honum“ (160).22
Innilokaða barnið kemur síðan enn betur fram á sjónarsviðið í fyrstu
sagnasöfnum Elísabetar, Rúm eru hættuleg og Galdrabók Ellu Stínu. Þeirri
síðarnefndu lýkur á sögu sem hefur yfirskriftina „Stelpa með tilfinningar“
og er ein af 52 örsögum bókarinnar. Þar segir frá stelpu sem er „beinlínis
að springa úr tilfinningum“ sem hún sendir „í allar áttir“ en ræður illa við
því hana „vantaði stjórn, auðmýkt og öruggi til að veita [þeim] farveg“. Hún
20 Sama rit, bls. 13.
21 Sama rit, bls. 15.
22 Elísabet hefur einnig tjáð sig um þetta í blaðaviðtölum, sjá t.d. Erla Björk Gunn-
arsdóttir og Snærós Sindradóttir, „Sterkasti drifkrafturinn er höfnun“. Viðtal við
Elísabetu Jökulsdóttur, Vísir, 10. júní 2016, sótt 8. apríl 2019 af http://www.visir.
is/g/2016160608802/sterkasti-drifkrafturinn-er-hofnun-. Þá hefur hún á undan-
förnum árum unnið markvisst með höfnun og ótímabæran dauða föður síns, sem
og önnur áföll í lífi sínu, í þeim tilgangi að ræsa hin sálrænu áhrif þeirra út. Þann
4. september 2016 framdi Elísabet t.a.m. gjörning í Bæjarbíói í Hafnarfirði þar sem
tilgangurinn var „að lofta út og viðra áföllin“ því hún var orðin „leið á dauða föður
[síns]“ og hvernig áfallið við að missa hann var búið að stjórna lífi hennar í 40 ár:
„Bæði mér sem listamanni og rithöfundi og sem manneskju. Og sem konu í ástar-
samböndum“, hdó, Fréttatíminn, 3. sept. 2016, bls. 32.