Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 237
SOFFÍa aUðUR BIRGISDóTTIR
234
hvernig líkamleiki kvenna „hefur úrslitaáhrif á hlutskipti þeirra“.26 Örsögu
Elísabetar má einnig túlka sem lýsingu á aðstöðu kvenna en Beauvoir leggur
áherslu á að „frumaðstaða mannsins [sé] líkaminn“. Sigríður Þorgeirsdóttir
segir umfjöllun Beauvoir um kvenlíkamann miða „öðru fremur að því að
sýna hvernig hann hefur áhrif á stöðu kvenna“ og er „takmarkandi þáttur“ í
athöfnum og áformum kvenna. Hún vísar til Debra B. Bergoffen sem fengist
hefur við heimspeki Beauvoir og skilgreinir hana sem kynbundin fyrirbæra-
fræði:
Vegna þess að Beauvoir telur líkamann einkum vera heftandi afl
þegar konur eiga í hlut segir Bergoffen að í kenningu Beauvoir
birti líkaminn það sem hún kallar „tvíræðni sjálfsverunnar“. Þetta
merkir að líkaminn skapar okkur aðstæður þar sem frelsi og nauð-
ung takast á. líkaminn er í senn staðurinn þar sem sjálfsveran getur
hafið sig yfir sjálfa sig í „handanveru“ („transcendence“) og þar sem
hún getur jafnframt lokast af inni í sér í „íveru“ („immanence“).
Í handanverunni felst því ekki annað en frelsi mannverunnar til
að skapa tilvist sína. Ívera merkir aftur á móti vanhæfni mannsins
til að vera gerandi, vegna þess að hann festist í hlutverki þolanda
sem tekur ekki sjálfráða ákvarðanir um eigin tilveru. Kvenlíkaminn
felur að mati Beauvoir í sér þá hættu fyrir konur að þær festist í
íverunni. líf kvenna er í ríkara mæli en karla „í þjónustu tegundar-
innar“ og í þeim skilningi tekur líkaminn af konum ráðin.27
líkaminn hefur verið mikið til umræðu í heimspeki á undanförnum ára-
tugum og hefur, að mati Sigríðar Þorgeirsdóttur „opnað heimspekinni nýjar
víddir á margvíslegan hátt“ og „gefið okkur heildstæðari sýn á manninn með
því að víkka út hugmyndir okkar um manninn sem þekkingar, siðferðis- og
samfélagslega veru“.28 Sigríður bendir á að líta megi á líkamann sem sam-
nefnara ólíkra strauma innan femínískrar heimspeki og að hann sé „jafn-
framt hinn heimspekilegi skurðpunktur umbreytingarafls femínískrar heim-
26 Sigríður Þorgeirsdóttir, „Konur og líkaminn“, „Hitt kynið í fimmtíu ár. Viðtökur og
viðhorf í Frakklandi,“ Simone de Beauvoir, heimspekingur, rithöfundur, femínisti, ritstj.
Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir, Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvenna-
fræðum, Háskólaútgáfan, 1999, bls. 101-119, hér bls. 109.
27 Sama rit, bls. 112-113. Sjá einnig Debra B. Bergoffen, The Philosophy of Simone de
Beauvoir. Gendered Phenomenologies, new York: SUnY Press, 1997, bls. 147.
28 Sigríður Þorgeirsdóttir, „Heimspeki líkamans og heimspeki í líkamanum og hvers
vegna hugsun er ekki kynlaus“, Hugur, 27/2015, bls. 65-80, hér bls. 67.