Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Blaðsíða 275
HJALTI HUGASOn
272
siðabókanna og þá einkum messusöngs- og sálmabókarinnar Graduale (þ.e.
Grallarans) 1594.71
nýjar rannsóknir á tveimur íslenskum söngbókarbrotum sem varðveitt
eru í handritum á konunglega bókasafninu í Stokkhólmi gefa nokkra innsýn
í fyrsta mótunartímabil lútherskrar guðsþjónustu. Benda þau til að messu-
söngur hafi verið mismunandi ekki aðeins milli biskupsdæmanna heldur
milli einstakra sókna innan þeirra. Þá kunni prestar ýmist að hafa sungið á
latínu eða móðurmáli en handritin hafa að geyma texta á báðum málunum
og kirkjuskipan Kristjáns III. rúmaði slíkan breytileika. Handritin hafa að
geyma ýmsa texta úr gregorskum kirkjusöng miðalda sem tilheyrðu ýmist
messu- eða tíðasöng sem snúið hefur verið á íslensku. Í þýðingunum hefur
sumum textunum þar sem María stóð upphaflega í forgrunni þó verið snúið
upp á Krist. Brotin sýna fram á að gera verður ráð fyrir umtalsverðu sam-
hengi í messusöngnum milli kaþólsks og lúthersks siðar og að markvissar
tilraunir hafi verið gerðar til að byggja lútherskt helgihald á hinum forna
messu- og tíðasöng.72 Tíðasöngurinn hefur þó einkum verið stundaður við
skólana á biskupsstólunum.73
Mikilvægt er að skriftaskyldan féll ekki niður með siðaskiptum. Þvert
á móti bar altarisgöngufólki áfram að skrifta fyrir kvöldmáltíð. Skriftirnar
þróuðust þó úr játningu einstakra synda yfir í nokkurs konar próf í kristnum
fræðum. Samhliða því féllu skriftaboð miðaldanna úr gildi. Einstaklings-
bundnar skriftir héldust fram um miðja 18. öld en tóku þá að víkja fyrir
sameiginlegum skriftum a.m.k. í fjölmennum sóknum.74 Slíkar skriftir lifa
raunar enn í almennri syndajátningu og aflausn í sunnudagsguðsþjónustum
þegar altarisganga fer fram.75
Þrátt fyrir ýmsar breytingar sem líklega hafa fremur komið fram sem
71 Áður hafði Marteinn Einarsson Skálholtsbiskup (1549–1556) gefið út handbók fyrir
presta (1555) og ólafur Hjaltason Hólabiskup (1552–1569) gefið út guðspjallabók
(1562). Einar Sigurbjörnsson, „Grundvöllur lagður að helgihaldi“, Frá siðaskiptum
til upplýsingar, Kristni á Íslandi III, ritstj. Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000,
bls. 63–68.
72 Handritabrotin eru að öllum líkindum frá tímabilinu 1540–1570 eða jafnvel 1544–
1555. Árni Heimir Ingólfsson, „Tvö íslensk söngbókarbrot frá 16. öld í Stokk-
hólmi“, Gripla XXIX, 2018, bls. 7–33. Sjá og Guðrún nordal, „Á mörkum tveggja
tíma: Kaþólskt kvæðahandrit með hendi siðbótarmanns, Gísla biskups Jónssonar“,
Gripla XVI, 2005, bls. 209–228, hér bls. 217, 226.
73 Jón Þórarinsson, „Latnesk tíðasöngsbók úr lútherskum sið“, Ritmennt: Ársrit Lands-
bókasafns Íslands — Háskólabókasafns 6, 2001, bls. 67–82, hér bls. 74–80.
74 Hjalti Hugason, „Kristnir trúarhættir“, bls. 226–228.
75 Handbók íslensku kirkjunnar, Reykjavík: Kirkjuráð, 1981, bls. 8, 11, 24.