Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Page 281
HJALTI HUGASOn
278
hvers vegna lestrarkunnátta almennings var marktækt meiri í Hólabiskups-
dæmi en í öðrum landshlutum en prestar gegndu mikilvægu hlutverki í að
efla læsið og hafa líklega notið aðstoðar djáknanna þar sem þeim var til að
dreifa.92 Á öðrum stöðum og þá sérstaklega í síðari greininni verður vikið að
ýmsum félagslegum áhrifum þess að klaustrin voru lögð niður.
Breytt félagsstaða presta
Við siðaskipti gekk prestastétt landsins í gegnum mikla óróleikatíma ef
marka má orð Jóns Egilssonar (1548–1636?) í Biskupa-annál hans. Að hans
sögn létu margir prestar af embætti án þess að mögulegt væri að manna
stöður þeirra nema með lítt lærðum mönnum af lágum stigum. Kvað hann
því hafa gætt mikils prestaskorts.93 Heimildir leyfa hvorki að þessi mynd sé
staðfest né hún hrakin. Samt er vitað að þó nokkrir prestar sem vígðust á
kaþólskum tíma héldu áfram í embætti allt fram undir 1600. Gott dæmi um
slíkan prest er Sigurður Jónsson á Grenjaðarstað. Hann var sonur Jóns Ara-
sonar og lykilklerkur í biskupsdæminu bæði fyrir og eftir siðaskipti.94 Um-
talsvert samhengi hefur því ríkt í stéttinni.95 Meðan lútherskan var að festast
í sessi hefur staða presta þó um margt verið í deiglunni.
Hér eins og víða annars staðar hafði gengið illa að framfylgja einlífis-
kröfum kirkjunnar. Allar miðaldir virðist fjöldi presta, jafnvel háklerka, hafa
haldið frillur eða jafnvel gert kaupmála við konur sem þar með urðu form-
legar fylgikonur þeirra líkt og um óvígða sambúð eða borgaralegt hjónaband
væri að ræða.96 Prestsheimilið var því ekki alger nýjung á siðaskiptatímanum.
Í lútherskum sið varð það þó að formlegri félagslegri og kirkjulegri stofnun.
Jafnframt varð staða prestskonunnar stórum öruggari og virðingarverðari
en verið hafði. Þar með varð jafnframt til nýtt kirkjulegt hlutverk fyrir kon-
ur, hin lútherska prestsfrú, sem skapaði mun fleiri konum tækifæri til að
öðlast kirkjulega virðingarstöðu en klaustrin áður. Hlutverk maddömunnar
92 Loftur Guttormsson, „Var sögu íslensku klaustranna lokið með siðaskiptum?“, bls.
170–173.
93 Hjalti Hugason, „Siðbót og sálarangist“, bls. 67–72.
94 Hjalti Hugason, „Frumkvöðull siðbótar á norðurlandi? Um Sigurð Jónsson á
Grenjaðarstað og afskipti hans af siðaskiptunum“, Saga LIII: 2/2015, bls. 42–71.
95 Hjalti Hugason, „Seigfljótandi siðaskipti: Viðhorf og staðalmyndir í siðaskiptarann-
sóknum“, Ritið 1/2018, bls. 165–197, hér bls. 186–189.
96 Gunnar F. Guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, bls. 206–211. Vilborg
Auður Ísleifsdóttir, „Hefðarfrúr og almúgakonur á 16. öld“, Kvennaslóðir: Rit til heið-
urs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi, Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001,
bls. 260–272, hér bls. 261.