Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2019, Síða 306
„YFRIN TóL / FÚTÚR góL“
303
stóð við vöggu gambraglær
galdramaður ær
með trítilóðar tær
Tobbi minn kær
og blessaði yfir í bobba50
Þegar maður heyrir þennan endi, blasir við að skoða árekstra merkingar-
leysa og merkingar í ljóðinu öllu og huga að því hvaða áhrif þeir hafa á
skynjun manns og vitsmuni, þar með taldar tilfinningar. Og þá sýnist mér
ansi forvitnilegt að spyrja spurninga í þessum dúr: Hafa rím, ljóðstafir og
hrynjandi ekki í einhverjum skilningi merkingu fyrir hreyfi- og heyrnarskyni
manns? Veitir það manni sams konar ánægju að njóta hljóms merkingar-
leysisins og skilja með vitsmununum merkingu sem snertir mann? Slær það
mann kannski ánægjulega út af laginu þegar þetta tvennt rekst á?
ónefnt er þá að í þessu makalausa ljóði, sem dillar vísast fleiri taugum
en ég kann skil á, dúkkar allt í einu upp í lokin persónan sem nefnd er í titli
þess. Margir hafa eflaust fyrir löngu áttað sig á að þar er kominn sjálfur
Æri-Tobbi, 17. aldar hljóðljóðaskáldið, hagmælti æringinn og þjóðsagna-
persónan sem sögð var hafa misst hæfileikann til að yrkja nokkuð af viti eftir
að hann vísaði ferðamönnum af stráksskap á einkar ófært vað yfir á – og þeir
drukknuðu allir.51 Spyrja mætti hvort Tobbi hefði verið með Tourette – og
kannski Dagur líka – en slíkum spurningum verður naumast svarað að sinni,
og því skal sjónum áfram beint að ljóði Dags. Ljóðmælandinn, sem fram til
þessa hefur verið „röddin“ ein, gerist nú ekki bara fyrirferðarmikill með því
að eigna sér Tobba með fornafninu „minn“ heldur tjáir tilfinningar sínar til
hans með orðinu „kær“.
Þegar Tobbi kemur til breytist allt, ljóðlínurnar verða ekki bara af ætt
rímnahefðarinnar með gamalkunnugt runurím á sínum stað heldur verður
framúrstefnan frásagnarljóð í beinu framhaldi af að Freyjugatan er órann-
sakanleg. Því snýst lokaspurningin ekki bara um hið ópersónulega og
ókunna andspænis hinu persónulega og nákomna, ekki bara um merkingu
og merkingarleysi, hljóm og hljómrof, heldur kannski um samhengi, segjum
í íslenskum bókmenntum, í ljóðlistinni allri, í mennskri tjáningu og upp-
lifun – ef ekki bara um hvort það er örugglega ennþá róló á Freyjugötunni.
50 Sama stað.
51 Þjóðsögur og munnmæli: Nýtt safn, (jón Þorkelsson bjó undir prentun), Freyste-
inn gunnarsson sá um útgáfuna, Halldór Pétursson teiknaði myndir, Reykjavík:
Bókfellsútgáfan, 1956, bls. 180–185.